Hvenær má ég byrja að hlaupa aftur?

Spurning:
Ég var að eignast mitt fyrsta barn og langar að vita hvenær ég má byrja að hlaupa aftur? Get ég fengið grindarlos ef ég byrja of snemma að hlaupa eftir fæðinguna?

Svar:
Ekki er talið æskilegt að stunda íþróttir fyrstu 6 vikurnar eftir fæðingu og oftast tekur það líkamann um 3 mánuði að ná sér fyllilega eftir fæðinguna. Sé byrjað að æfa of snemma getur það valdið of miklu álagi á legfestingar og blöðru, sem og mjaðmagrind. Einnig getur mjólk í brjóstum minnkað við miklar æfingar og hlaup. Þegar þú ferð af stað í þjálfun skaltu byrja hægt og fara rólega fyrst í stað. Þú finnur svo sjálf hvað þú þolir. Verði vöðvar þreyttir getur hlaðist upp mjólkursýra í brjóstamjólkinni sem breytir bragðinu af henni og gerir hana óæskilegri fyrir barnið. Vertu því skynsöm í þjálfuninni og hugsaðu bæði um þig og barnið.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir