Hvenær segi ég vinnuveitanda frá þungun o.fl.?

Spurning:
Hæ, hæ! Ég var að fá staðfestingu um þungun þann 14. júní, en ég er komin það stutt að enn er ekki hægt að sjá hvort allt sé eðlilegt. Ég er líklega á fjórðu eða fimmtu viku núna! Mig langar að vita:
Hvenær tilkynni ég vinnuveitanda að ég sé ólétt?
Ég veit að í lögum er það eigi síður en 8 vikum fyrir þann tíma sem maður ætlar sér að taka fæðingarorlof!
Hvenær er óhætt að segja vinum og fjölskyldu frá þunguninni?
Ég hef einhvern tímann heyrt að maður eigi ekki að segja frá þungun fyrr en á 2.-3. mánuði, þegar er komið fram yfir hættuna á fósturláti!

Er eitthvað sem hægt er að gera til að forðast slit á maga?
Er eitthvað sem hægt er að gera til að minnka líkur á fósturláti?
Er í lagi að vera í gallabuxum á meðan engin ,,bumba" er komin?
Hvenær fer að sjást á mér? (Hvenær byrjar ,,kúlan" eða ,,bumban" að myndast?
Hvenær er hægt að fá að vita kyn barnsins?

Með von um svar

Svar:
Það fer nú eftir smekk hvers og eins hvenær og hvernig stórtíðindi eru borin fyrir vini og ættingja. Þú verður bara að dæma það sjálf út frá því hvernig þér líður með þungunina og hvenær þú vilt að það fregnist. Það er algengt að konur bíði fram yfir 12 vikurnar – bæði af því að þá er mesta fósturlátshættan liðin og einnig vegna þess að þá styttist í að erfitt geti verið að leyna þunguninni. Það er þó mjög misjafnt hvenær fer að sjá á konum en oftast er það á bilinu um 12-16 vikur meðgöngu. Gallabuxurnar geturðu notað þar til þær verða of þröngar – þú finnur það sjálf.

Það er ekki margt sem hægt er að gera til að koma í veg fyrir fósturlát annað en að lifa skynsamlegu lífi fríu við hættuleg efni eins og nikótín, alkóhól og önnur skaðleg efni, sem og gæta hófs í líkamsrækt og heitum böðum.

Slit á maga er ekki hægt að forðast með öllu því það fer eftir húðgerð hvort konur slitna og slitið verður í neðri húðlögunum. Það sakar þó ekki að bera á sig góð og mýkjandi krem sem ganga vel inn í húðina.

Kyn barnsins er stundum hægt að sjá í ómskoðun við 19-20 vikna meðgöngu en hæpið að það heppnist fyrr og alls ekki 100% öruggt.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir