Hvernig á að venja barn af brjósti?

Spurning:

Ég finn hvergi neinar upplýsingar um hvernig skuli venja barn af brjósti, hvenær það sé talið hentugt og þess háttar. Getið þið bætt úr því?

Takk fyrir góða síðu.

Svar:

Sæl.

Það er rétt hjá þér, það vantar efni um hvernig brjóstagjöfin þróast og hættir. Það stendur nú vonandi til bóta því sífellt bætist við efni. En svona til að bjarga þér fyrir horn er hér smávegis til að byggja á. Það er börnum hollast að fá eingöngu brjóstamjólk í u.þ.b. 6 mánuði. Eftir það er gott að fara að kynna þau fyrir annars konar mat með brjóstagjöfinni en hafa þau áfram á brjósti a.m.k. þar til þau eru farin að borða vel og nota alla fæðuflokkana. Brjóstamjólkin heldur alltaf gildi sínu sem næring, þótt vitaskuld þurfi barnið meiri næringu með eftir því sem það eldist. Hversu lengi barn er haft á brjósti er móður og barns að ákveða. Það er í raun ekkert sem mælir á móti brjóstagjöf í 2-3 ár, nema smekkur fólks. Það fer töluvert eftir því hversu gamalt barnið er hvaða aðferðir eru notaðar við að venja það af brjósti. Grundvallaratriðið er þó alltaf að gefa sér góðan tíma og gera það rólega. Ef barnið er vanið af brjósti um leið og það er vanið á aðra fæðu getur verið gott að taka út eina brjóstamáltíð á viku og gefa mat og drykk í staðinn, eina teskeið til að sjá hvort barnið þolir viðkomandi fæðutegund og brjóst eða pela með, en upp í fulla máltíð á vikunni. Þá tekur u.þ.b. 6- 8 vikur að hætta alveg. Ef barnið er orðið eldra gefst oft vel að sleppa því að bjóða brjóstið en gefa það ef barnið man eftir því. Þannig lengist smám saman sá tími sem líður milli gjafa. Það geta jafnvel liðið einhverjir dagar sem barnið man ekki eftir brjóstinu, sérstaklega ef maður er ekkert að sýna þau eða finnur upp á einhverju skemmtilegu að gera með barninu í stað brjóstagjafarinnar. Næturnar geta þó reynst erfiðar ef barnið er vant að sofna við brjóstið – en þá er bara að fá pabbann til að sinna barninu á nóttinni meðan það er að venjast því að sofna án brjósts. Það er ekki einungis best fyrir barnið að það sé vanið hægt af brjósti. Brjóstin þurfa líka tíma til að aðlagast minnkandi eftirspurn. Annars er hætt við að þau yfirfyllist og í kjölfarið komi stíflur með fylgjandi hita og óþægindum. Þegar brjóstagjöf er búin að vara í margar vikur eða mánuði dugar heldur ekkert lyf til að þurrka upp brjóstin. Enda eru þau lyf sem notuð voru til skamms tíma mjög eitruð og hafa slæmar aukaverkanir. Ég vona að þetta gefi þér einhverjar hugmyndir um hvernig þið getið hætt brjóstagjöfinni.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir