Spurning:
Hverju mynduð þið mæla með til að ,,auka framleiðsluna" þegar maður er með barn á brjósti? Dóttir mín er 3ja vikna og er í vaxtakipp og ég hef áhyggjur af því hvort hún fái nóg. Get ég drukkið eitthvað eða borðað sem eykur mjólkina? Af hverju kemur grænn kúkur hjá ungbörnum sem eru bara á brjóstamjólk?
Takk fyrir.
Svar:
Það sem best er til fallið til að auka mjólkurmyndun er að leggja barnið oft á brjóst og lofa því að ljúka sér af á öðru brjóstinu áður en því er boðið hitt. Svo virkar ró og næði ásamt góðri hvíld milli gjafa hvetjandi fyrir mjólkurmyndunina. Til eru te sem eiga að auka mjólkurmyndun en þau innihalda m.a. fennel og brenninetlu. Hægt er að fá þessi te m.a. í verslununum Móðurást og Þumalínu. Einnig eru efni í maltöli og pilsner sem örva mjólkurmyndun.
Varðandi hægðir brjóstabarna þá eru gallefni í meltingunni sem valda græna litnum. Oft er þetta meira áberandi ef börnin fá ekki nægju sína en getur þó komið af og til án þess að nokkuð sé að. Ef barnið bleytir 6-8 bleiur á dag og kúkar daglega eða oftar á þessum aldri er engin ástæða til að hafa áhyggjur af litnum á hægðunum.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir