Hvernig er best að auka vöðva á efri hluta líkamans

Spurning:

Kæra Ágústa.

Ég er að reyna að losna við ca. 10 kíló. Ég fer þrisvar í viku í sund og syndi skriðsund í ca. hálftíma. Þá daga sem ég fer ekki í sund skokka ég á hlaupabretti í tuttugu mínútur og geri svo armbeygjur og upptog á eftir.

Alls eru þetta sex skipti í viku, ca. hálftími í senn og þá af nægri snerpu til að ég sé því sem næst uppgefin á eftir.

Mig langar að spyrja þig um eftirfarandi: þetta kerfi virðist vera að virka hvað það varðar að grennast, en mikið vill meira og nú vil ég gjarnan sem hliðarverkun, auka svolítið vöðvamagnið á efri hluta líkamans, fyrst og fremst handleggjunum því þeir eru hálfaumingjalegir, samanborið við hinn hluta líkamans (brennslan er samt ennþá aðalatriðið).

Ætti ég að gera einhverjar breytingar á þessarri rútínu til að auka árangurinn (sundið er frekar heilagt, því það er svo fín afslöppun svo ég meira til í að hætta skokkinu).

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Til að styrkja enn frekar upphandleggina (þú styrkir þá vissulega vel með armbeygjunum og upptoginu) þá þarftu að bæta við fleiri styrktaræfingum fyrir upphandleggsvöðva. Ég myndi ráðleggja þér að fá æfingakerfi hjá þjálfara og fá þá einnig tillögur að æfingum fyrir kviðvöðva og bakvöðva. Það er afar mikilvægt að styrkja alla helstu vöðvahópa líkamans.

Að öðru leyti finnst mér þú vera með fína æfingarútínu og frábært að þú sjáir árangurinn. En gott er að hafa hugfast að fjölbreytni er alltaf lykilatriði og líkaminn er fljótur að aðlagast ákveðnu álagi og því mikilvægt að breyta til reglulega í æfingavali.
Gangi þér vel.

Kveðja,
Ágústa Johnson, líkamsræktarþjálfari