Hvernig er best að hætta á Rivotril?

Spurning:
Mig langar til að vita hvernig er best að hætta á rivotril, 0.5mg 2×2 á dag. Ég er á þessu lyfi hvegna þess að ég þjáðist af mildri geðhvarfasýki en reyndar er geðlæknirinn minn ekki alveg viss um hvort þetta sé rétt greining hjá sér. Ég er búinn að vera á þessu lyfi í 3 ár og eg er orðinn nett þreyttur á að vera tilfinningalaus, bæði andlega og kynferðislega. Reyndar er ég líka á Cipralex 10mg tvær á dag. Ég yrði mjög ánægður með að fá einhver ráð nema kannski ,,þú ættir að ráðfæra þig við lækninn". Með fyrirfram þökk

Svar:
Ég mæli eindregið gegn því að þú breytir skömmtum á þeim lyfjum sem þú tekur nema í samráði við lækni. Mitt aðal ráð er því að þú ráðfærir þig við lækninn. Þegar hætt er snöggt að nota Rivotril er veruleg hætta á eftirköstum eins og skjálfta, óróleika, svefnleysi, svitaköstum o.s.frv. Almennt er því ráðlagt þegar hætt er að nota lyfið, sé það gert hægt og á löngum tíma. Þ.e.a.s. skammtar eru minnkaðir hægt og rólega. Nákvæmlega hvernig get ég ekki sagt til um, en t.d. mætti minnka skammtinn um eina töflu á viku. Ég ítreka samt að ekki sé hætt að nota lyfið án samráðs við lækni.

 

Finnbogi Rútur Hálfdanarson

lyfjafræðingur