Hvernig er best að segja börnunum að…?

Spurning:
Halló.
Ég og maðurinn minn erum að skilja og eigum eftir að tala við börnin okkar um það. Þau eru 7 og 2 ára gömul. Mér finnst þetta alveg hræðileg tilhugsun að segja börnunum að pabbi eigi ekki eftir að búa hjá þeim meira, en þetta er komið á það stig að skilnaður er eina leiðin. Hvernig er best að tala við þau um þetta, ég veit að þetta á eftir að verða þeim stórt áfall. Er einhver leið sem að best er að fara? Væri gott ef að þið hafið einhver svör.
Kveðja X

Svar:
Sæl.

Það er ekki til nein rétt leið til að segja börnunum ykkar þetta. Barn sem er 2 ára á ekki eftir að skilja útskýringar en veitið því aðhald og öryggi. Með eldra barnið þá skuluð þið vera samstíga þegar þið segið því þetta og látið það vera alveg skýrt að það sé ekki verið að hafna barninu og að þetta sé ekki sök barnsins. Ekki heldur gefa barninu vonir um að þið takið aftur saman en skýrið út að barnið verði í samskiptum við báða foreldra (ef það verður þannig).

Gangi ykkur vel
Brynjar Emilsson
Sálfræðingur