Hvernig er best að styðja börn eftir skilnað?

Spurning:
Sæl.
Ég er í sambúð með manni sem á 2 börn frá fyrra hjónabandi. Það samband endaði illa og enn illt á milli, sérstaklega frá móðurhliðinni. Henni líður illa, henni finnst hún yfirgefin og einmana og er þunglynd. Hún er í ráðgjöf og vonandi verður ástandið betra með tímanum. En á meðan að beðið er eftir því þá líður strákunum illa, sérstaklega eldri stráknum sem því miður þarf að fylgjast með móður sinni í þessu ástandi og taka vissa ábyrgðarstöðu. Við fáum strákana aðra hvora viku og þeir virðast í ágætis jafnvægi þegar þeir eru hjá okkur. Sá eldri getur þó tekið sérkennileg köst þar sem hann hlær og lætur kjánalega og engin leið að ná til hans þá – líkist einhvers konar flótta og ofsahræðslu að lenda í ágreiningi. Það sem mig langar að athuga með er hvernig er best að við snúum okkur? Er einhver góð bók á íslensku sem þið getið bent mér á að lesa? Ráðleggið þið mér að leita til barnasálfræðings og þá með börnin eða bara við? Annað mál er að nú er ég ólétt. Hvernær er gott að strákarnir fái vita af nýja systkininu? Er einhver ,,rétt" leið að segja þeim frá því? Vonandi hafið þið einhver svör eða ábendingar.. með kærri kveðju og þakklæti.

Svar:
Sæl.

Þið getið auðvitað leitað til barnasálfræðings ef þið teljið að eldri drengnum líði mjög illa. Byrjið á að fara án barnanna og ræða málin við sálfræðinginn. Hann ákveður síðan hvort ástæða sé til að hann hitti börnin eða ráðleggja ykkur eingöngu. Þegar eldri drengurinn fær þessi köst þá er það væntanlega til að fá athygli og þetta er bara hans leið til þess. Mikilvægt er að leyfa honum að njóta sín og finna stuðning ykkar. Ef það er rétt sem þú segir með að hann beri ábyrgð á móður sinni þá er ágætt að hann fái að slaka á þegar hann er hjá ykkur. Reynið að hafa stöðugt umhverfi og passið ykkur á að ræða ekki um móður hans á neikvæðan hátt þegar hann heyrir til. Það er ekki nein ein rétt leið með hvenær á að segja drengjunum frá því að þú sért ólétt. Ég mæli þó með að þið segið þeim það fljótlega, bæði til að undirbúa þá og til að leyfa þeim að taka þátt í og hlakka til að eignast lítið systkini. Reynið að skapa góða stemningu þegar þið segið þeim frá þessu og hafið það á þeim nótum að þetta sé spennandi og jákvætt. Það er ekki vænlegt að segja þeim þessi tíðindi með kvíðasvip á andliti. Bækur á íslensku eru ekki margar um þessi mál en þó má nefna bókina Börn og skilnaður eftir Benedikt Jóhannsson frá 1996.

Gangi ykkur vel.

Brynjar Emilsson
Sálfræðingur
Laugavegi 43
s:661-9068