Hvernig er virkni p-pillunnar háttað?

Spurning:

Komiði
sæl!

Ég er nítján ára stelpa og er á pillunni. Mig langaði til að
forvitnast um hvernig virkni hennar er háttað. Ég var að lesa á síðum ykkar
um getnaðarvarnarpilluna og þar stóð að getnaðarvörn væri til staðar
þá daga sem pillan væri tekin og einnig þá daga sem tekið er vikufrí frá
pillunni.

Ég á svolítið erfitt með að trúa þessu, en þýðir þetta sem
sagt að öruggt sé að stunda kynlíf þá daga sem pillan er ekki tekin þ.e.a.s. þá
viku sem tíðablæðingarnar eiga sér stað?

Takk kærlega fyrir!

Ein nítján ára og áhyggjufull.

Svar:

Í eðlilegum tíðahring eru um það bil 28 dagar, eðlilegt
telst þó að hann sé frá 25-35
dagar. Um miðjan tíðahring verður egglos og sæðisfruma
getur frjóvgað eggið í eggjaleiðurunum. Tími egglosa er
mismunandi frá konu til konu, getur verið nánast hvenær sem er í
tíðahringnum. Eggið lifir aðeins í 6-12 tíma eftir egglos og er
það tíminn sem það getur frjóvgast. Aftur á móti geta sæðisfrumur
lifað í 2-3 daga í kynfærum konunnar.

P-pillan
veldur því að egglos verður ekki (ásamt fleiru) og því ekki hætta
á þungun. Ekkert egg, engin þungun!

Sé p-pillan rétt tekin er hún með öruggustu getnaðarvörnum
sem hægt er að fá og því í lagi að stunda kynlíf hvenær sem
er, líka í hléinu. Hafa ber samt í huga að af 100 konum á
p-pillunni í eitt ár geta 0,3-1,2 orðið barnshafandi, þ.e. um 1-3
konur af 300 konum.

Ef einhver vandræði eða óvissa kemur upp varðandi
p-pilluna skal leita læknis.

Kveðja,
Jón Pétur Einarsson, lyfjafræðingur