Hvernig fer saman beta-hamlandi háþrýstilyf og skokk?

Spurning:

Góðan dag.
Ég er 41 árs og hef tekið lyf við háum blóðþrýstingi í 4 ár. Lyfjagjöfin hefur haldið þrýstingnum í lagi. Síðastliðið vor byrjaði ég að skokka og hef ekki stoppað síðan. Ég er farinn að hlaupa 20 – 30 km í viku.

Það sem mig langar að vita er hvernig þetta fer saman, þ.e. að vera að taka betablokkara og stunda hlaup. Það reynir talsvert á hjartað að hlaupa mikið. Betablokkari er jú til að halda í við hjartað, er það ekki? Ég hef heyrt að hægt sé að æfa sig í gegnum „blokkunina”, en veit ekki alveg hvað það þýðir í reynd.

Spurning mín er kannski bara þessi: Felst einhver áhætta í því að vera að æfa svona hlaup samhliða því að taka þessi lyf?

Svar:

Sæl.

Reglubundin hreyfing er góð fyrir alla, ekki síst fyrir fólk með háan blóðþrýsting og stuðlar gjarnan að lækkun blóðþrýstingsins.

Íþróttafólk sem stundar skokk eða langhlaup, nær oft ekki besta árangri sínum ef það jafnframt tekur beta-hamlandi háþrýstilyf. Væri sjálfsagt fyrir þinn lækni að hafa vitneskju um þennan lífsmáta. Hann gæti þá hugsanlega viljað breyta lyfjagjöfinni, enda mörg önnur lyf sem koma til greina sem eru heppilegri undir þessum kringumstæðum. Sérstök hætta er hins vegar ekki samfara notkun beta blokkera og áreynslu íþrótta.

Kveðja,
Uggi Agnarson, læknir Hjartavernd