Hvernig get ég hjálpað kærustunni?

Spurning:
Hæ.
Ég var að velta því fyrir mér hvað ég sem aðstandandi (kærasti) get gert til að hjálpa manneskju sem er hætt að borða, þ.e.a.s. eitthvað af viti. Kærastan mín er 15 ára, fædd '88, og er farin að hugsa eins og margar stelpur á hennar aldri að hún sé allt of feit. Hún er alls ekki feit og mjög lagleg í útliti. Hún er bara svona miðlungs í vaxtarlagi og með vel vaxinn líkama. Í gær var næringin 2 brauðsneiðar, daginn þar áður 2 vatnsglös og epli, stundum borðar hún aðeins meira en annars er þetta svona matseðillinn 4 af 7 dögum vikunnar að meðaltali. Ég veit ég get ekki troðið upp í hana mat en hvað á ég þá að gera? Hvernig get ég stutt hana í að bæta sjálfsálit sitt og fara að borða aftur?

Svar:
Þetta sem þú ert að lýsa er auðvitað hrikalegt vandamál þar sem ungt fólk er að keppast við að líta út eins og ofurfyrirsætur sem hafa holdafar sem er fjarri því að geta talist venjulegt. Þetta mataræði er langt frá því að geta talist fullnægjandi og hættan er sú að hún missi stjórnina og fái anorexiu (ef hún er ekki nú þegar komin á það stig). Ég ráðlegg þér að setja þig í samband við félagsskap sem heitir Spegillinn og eru samtök fólks sem hafa verið með átraskanir og aðstandenda þeirra. Þar getur þú vonandi fengið gagnleg ráð varðandi stuðning þinn gagnvart kærustunni þinni s: 661-0400, netfang: spegillinn@talnet.is. Ég ráðlegg þér líka að gefast ekki upp á því að segja henni að hún sé fín eins og hún hafi verið og að hún þurfi ekki að vera grennri. Ég held að stelpur þurfi að heyra það frá strákum að þeir vilji ekki endilega hafa þær grindhoraðar! Þetta eru bara svo rótgrónar ranghugmyndir um holdafar sem birtast í öllum glanstímaritum og í fjölmiðlum. Við þurfum öll að spyrna við fæti og segja skoðanir okkar á þessu!

Kveðja, Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur Geðhjálpar