Spurning:
Sæll vertu.
Ég hef haft vélindabakflæði í eitt ár og vil endilega reyna að losna við það. Ég hef rætt við lækninn minn og hann vill bara gefa mér meiri lyf sem ekki duga, verkirnir eru hræðilegir. Ég þarf að taka verkjalyf mörgum sinnum á dag og þau slá bara á það versta. Ég er gersamlega ráðalaus. Getur þú ráðlagt mér eitthvað?
Ein ráðalaus.
Svar:
Vélindabakflæði hefur oftast mjög vel skilgreind einkenni sem eru brjóstsviði (hita-, brunatilfinning undir og bak við bringubeinið), nábítur (beiskt, súrt óbragð upp í munninn), kyngingarörðuleikar og særindi við kyngingu. Önnur einkenni eru sjaldgæfari en koma þó fyrir. Verkir, sem fylgja bakflæði, eru vegna samdrátta í vélindanu, en kröftug lyfjameðferð (með nýjum lyfjum, prótóndæluhemlum) til að halda sýrunni í skefjum duga lang oftast. Ef það gerist ekki þarf að skoða málið betur og útiloka aðra orsök verkjanna, en bakflæði á sýru. Þess vegna er nauðsynlegt að gera holsjárskoðun (speglun) á efri hluta meltingarvegar (vélinda, maga og skeifugörn) og einnig athuga hreyfingar vélindans og mæla sýruna í því. Ráðlegg þér að ræða þetta frekar við þinn lækni.
Kveðja og gangi þér vel.
Ásgeir Th