Hvernig virka sogpumpur?

Spurning:
Hæ. Getur þú sagt mér hvort sogpumpur (til að stækka liminn) sé heilbrigt til notkunar? Seljendur segja það sé 100% náttúrulegt.

Svar.
Það má kannski segja að eitthvað sé 100% náttúrulegt ef það gerir nákvæmlega ekki neitt – annað en það sem gerist venjulega í líkamanum!! Þegar seljendur hjálpartækja halda því fram að eitthvað sé 100% náttúrulegt er það fyrst og fremst gert til að ýta undir sölu hjá auðtrúa og fáfróðum kaupendum sem halda að þá sé varan eitthvað ,,betri”. En svona í fullri alvöru þá valda svona pumpur ekki varanlegri stækkun vefja í limnum og þar af leiðandi ekki heldur limnum. Það sem gerist er að limurinn er settur inn í hólk og lofti dælt úr hólknum. Við það streymir blóð til limsins og hann ,,stækkar” eins og hann gerir við venjulega stinningu. Til að halda stinningunni (t.d. vegna æðakvilla) er teygja sett utan um limrótina. Teygjuna verður að taka innan hálftíma frá stinningu og það má alls ekki sofna með teygjuna á limnum. Eftir að karlmaðurinn er búinn að fá sáðlát og fullnægingu, verður limurinn slakur – og jafnstór sem fyrr.

 

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir,
Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi