Hvers vegna fæ ég blóðnasir?

Spurning:

Sæll.

Um daginn var ég algjörlega úrvinda eftir tiltölulega rólegan dag í vinnunni og sofnaði í 1 1/2 tíma og hafði ekki einu sinni orku til að fara í sturtu. Rétt eftir að ég vaknaði fann ég að ég var komin með blóðnasir. Ég hef aldrei á ævinni fengið blóðnasir, ekki einu sinni þegar nefið mitt brotnaði. Þess vegna finnst mér þetta mjög undarlegt og ég var að vona að þið gætuð gefið mér einhver svör. Ég er 24 ára gömul.

Með fyrirfram þökkum.

Svar:

Sæl.

Blóðnasir eru afar algengur heiluskvilli, sem oft tengist sýkingum í öndunarvegi. Sérstakt samhengi við þreytu er ekki augljóst og sennilega tilviljun. Ekki er ástæða til að hafa áhyggjur af einstaka blóðnösum hjá fólki sem er að öðru leyti hraust. Ef þetta gerist ítrekað endurtekið, ráðlegg ég þér að leita til heimilislæknis þíns sem myndi sennilega vilja rannsaka blóðmagn og skoða blóðstrok. Háþrýstingur er ósennileg orsök blóðnasa hjá ungu fólki.

Kveðja,
Uggi Agnarson, læknir Hjartavernd