Hvert geta þolendur kynferðisofbeldis leitað til að fá kvenskoðun?

Spurning:

Góðan dag.
Er einhver leið fyrir þolendur kynferðisofbeldis að fá árlega kvenskoðun hjá einhverjum sem er vanur að meðhöndla þolendur? Ég hef haft samband við nokkra staði sem Stígamót bentu mér á en þeir læknar taka ekki við nýjum sjúklingum. Ég hef ekki orðið fyrir áfalli nýverið heldur er þetta gamall draugur sem hefur komið í veg fyrir að ég fari í skoðun.

Takk fyrir.

Svar:

Sæl.

Takk fyrir fyrirspurnina. Þessum vangaveltum erum við alvanar hjá Stígamótum og gott að fá tækifæri til þess að koma svörunum á framfæri.

Meðvitund er alltaf að aukast um það að konum með kynferðisofbeldisreynslu getur reynst erfitt að fara í kvenskoðun. Sem betur fer hafa nokkrir læknar sérhæft sig í að sinna konum með slíka reynslu og við erum í sambandi við tvær konur sem eru kvensjúkdómalæknar sem almennt eru fullbókaðar en taka á móti „okkar” konum. Þær eru báðar í teymi Neyðarmóttökunnar og hafa reynslu af að sinna konum sem beittar hafa verið nauðgunum. Það er velkomið að hringja til okkar í síma 562 6868 og fá uppgefin nöfnin og láta vita hjá læknariturunum að Rúna Jónsdóttir hafi vísað þeim, ef einhverjum finnst óþægilegt að nefna Stígamót.

Fyrir einhverjar getur verið auðveldara að fara til heilsugæslulæknis í kvenskoðun. Ein þeirra er Guðbjörg Sigurgeirsdóttir heilsugæslulæknir á Heilsugæslunni á Seltjarnarnesi (v. Suðurströnd á bak við sundlaugina), Til þess að ná sambandi við hana er best að hringja á Heilsugæsluna f. kl. 11 á morgnana í sima 5612070 og láta skrá sig og Guðbjörg hringir svo í sjúklinga í hádeginu.

Vonandi hjálpar þetta svar, ef ekki endilega sendið aðra fyrirspurn.

Með bestu kveðju,
Rúna Jónsdóttir, Stígamótum