Illa haldinn af afbrýðissemi?

Spurning:
Ég er mjög illa haldinn af afpríðisemi út af því að konan mín sagði mér frá fyrri kærustum.Ég held að hún hafi ekki sagt mér allt og svo veldur þetta mér svakalegri kvöl þegar ég hugsa um orð hennar. Ég á erfitt með að anda, svimar, langar að berja allt og alla svo endar með að ég er orðinn dapur og langar mest að gráta!

P.s Ég er orðin dapur og svefnvana."hjálp"!!!

Svar:
Öll eigum við okkar fortíð og nú á tímum er algengt að fólk hafi verið í fyrri samböndum. Ekki kemur fram í þinni lýsingu hvort þú hafir t.d. verið í fyrri samböndum og þá hvernig kærasta þín hefur brugðist við því. Best er að þið ræðið þetta saman og verður þú þá að vera hreinskilinn. Afbrýðisemi er afar erfitt að fást við án aðstoðar. Skýringar geta verið margar t.d. að þú hafir reynslu af einhverskonar svikum úr fyrra sambandi. Þó þarf ekki að finnast einhver einföld skýring. Þú þarft að skoða hvers vegna þér líður svona og hvort þú finnir einhverjar skýringar á þessu. Þú getur t.d. reynt að finna hugsanir sem "poppa" upp í hugann sem snúa að þessu.

Ef við tökum almennt dæmi um konu sem hringir ekki kærasta sinn þá hugsar hann kannski "hún hringir ekki í mig af því hún hefur engan áhuga á mér". Þá er gott að skrifa þessar neikvæðu hugsanir niður á blað og finna síðan sannanir með og á móti þessum hugsunum. Síðan reynir þú að finna nýjar skýringar t.d. hún gæti hafa fengið heimsókn eða hún þurfti nú að klára þetta verkefni í skólanum o.sv. frv. Síðan er hægt að bera þessar skýringar saman og athuga hvort er líklegri. Ef þú treystir þér ekki að vinna úr þessu einn þá mæli ég með viðtalsmeðferð hjá sálfræðingi.

Gangi þér vel. Brynjar Emilsson Sálfræðingur s:661-9068