Kækir og einbeitingaskortur í nýju landi

Spurning:

Sæl.

Ég hef áhyggjur af syni mínum. Við fluttum til Skandinavíu fyrir 2 mánuðum og hann var þá að byrja í 6 ára bekk. Síðan við komum þá hefur hann búið sér til ímyndað land sem er uppi í geimnum. Þar er hann er guð og hann ræður hver þar býr. Í þessu landi er allt gott og þar má allt sem ekki má hér og öfugt. Þar eru t.d engir glæpamenn og allir stoppa fyrir fólki á gangbrautum. Hann talar mjög mikið um Kóbraland bæði heima og í skólanum og stundum kemst fátt annað að hjá honum. Hvernig á ég að bregðast við, á ég að taka þátt í þessu með honum eða biðja hann að hætta þessari vitleysu? Er þetta kannski mjög eðlilegt miðað við allar þær breytingar sem hann er að ganga í gegnum?

Svo er hann með stanslausa kæki í andlitinu, hann hefur tekið annað slagið upp kæki. En þetta hefur ágerst síðan við fluttum út og ég veit ekki alveg hvernig á að bregðast við þeim. Er ekki algengt að barn taki upp kæk á álagsstundum??

Svo er enn meira, það gengur ekki vel með hann í skólanum hann hefur engan áhuga og vill bara leika og hefur enga einbeitingu. Hann neitar að fara í skólann og vill bara vera í viðveru að leika sér. Hann fór í próf þar sem fram kom að teikningar hans eru enn óþroskaðar og hann nær ekki fyrirmælum vel. Talað er um að hann þurfi kannski aftur að fara í 6 ára bekk. Hann sé einfaldlega ekki tilbúinn í 7 ára bekk ef þetta heldur áfram svona. Hann er fæddur í desember og er fyrirburi svo það hefur auðvitað áhrif en talað er um að hann sé svolítið á eftir ennþá og vilji bara leika og vera í sínum ímyndunarleikjum.

Hér er 6 ára bekkur í raun bara leikskóli þar sem verið er að kenna þeim að vera vinir, sitja kyrr og þess háttar. Lestrarkennsla hefst ekki fyrr en í 7 ára bekk sem er 1. bekkur hér.

Hann hefur alltaf haft mjög frjótt ímyndunarafl og oft hefur verið erfitt að fá hann úr Batman og Tarzan veröld sinni. Annars er hann skýr drengur og gengur vel að læra stafina og þess háttar.

Tveir mánuðir er auðvitað ekki langur fyrir aðlögun, en hann er þó mjög ánægður hérna og virðist ekki vera með heimþrá. Hér á hann góða íslenska vini og er mjög sáttur við að búa hér og ánægður með kennarana sína.

Er þetta eitthvað sem ég ætti að gefa meiri tíma t.d. fram á vor eða leita hjálpar strax fyrir hann t.d. hjá sálfræðingi. Og hvernig er best að fá hann út úr þessarri veröld sinni og fá auka áhuga hans á skólanum sínum og fá hann til að halda einbeitingu??

Ég er með mjög miklar áhyggjur af þessu og get ekki varist þeirri hugsun að ég hafi einhvern veginn brugðist sem foreldri.

Kveðja.

Áhyggjufull ung móðir.

Svar:

Sæl.

Ég heyri að þú hefur áhyggjur af drengnum þínum í nýjum aðstæðum. Eins og þú sjálf segir þá eru tveir mánuðir stuttur tími og nokkuð víst að strákurinn er enn að átta sig á nýjum heimkynnum.

Svona miklar breytingar eins og flutningar til annarra landa geta að sjálfsögðu haft ýmis áhrif á börn.

Ímyndaðir vinir eða veröld geta verið ein leið til að bregðast við svona breytingum. Ég held að þú ættir ekki að taka þátt í þessum heimi en, þar sem þetta er hans leið til að bregðast við nýjum aðstæðum held ég að það ætti ekki að banna honum að tala um heiminn sinn. Það er hins vegar spurning hvort þú getur beint honum inná að tala um heiminn sinn á ákveðnum tímum og við ákveðnar aðstæður.

Þú segir ekkert til um hvort strákurinn þinn kunni málið fyrir flutning en ég geri ekki ráð fyrir því. Viðbrögð hans að leika sér í skólanum geta kannski að hluta til skýrst af því að hann ekki skilur þær kröfur sem gerðar eru til hans eða gefst upp á að fylgjast með hinum. Hérlendis er börnum ekki seinkað í skóla, jafnvel þó þau séu á eftir jafnöldrunum. Frekar er reynt að grípa inní með stuðningi inní bekkinn eða öðrum ráðum, en ég þekki það að þar sem þú býrð er börnum hlíft við námið aðeins lengur. Áður en ákvörðun verður tekin um að seinka honum í skóla ættir þú að óska eftir því að t.d. skólasálfræðingurinn meti þroska hans fyrir næsta vetur.

Það er rétt hjá þér að það er vel þekkt að kækir aukast við álag og þreytu. Ef þeir hins vegar hverfa ekki eða minnka verulega meðfram því að lífið í nýju landi venst hvet ég þig til að leita til fagaðila, t.d. barnalæknis og fá álit hans. Ef kækirnir aukast og verða flóknari (t.d. hljóð eða flóknari líkamshreyfingar) hvet ég þig einnig til að leita til fagaðila. Einbeitingaskortur birtist stundum samhliða kækjum og því vert að fylgjast vel með því hvernig honum gengur á því sviði.
Gangi ykkur vel.

Kveðja,
Svandís Sigurjónsdóttir, sálfræðingur

Svandís starfar á Greiningar- og ráðgjafastöð Ríksins