Kalkkristallaliðagigt

Sæl hef sent hér inn áður en engin svör fengið. Ég er með kalkkristalla í liðum og vil gjarnan heyra um meðferð eða lyf við slíku. Þetta er ekki sama og þvagsýruliðagigt eins og sumir virðast halda. Á ensku heitir þetta Calcium pyrophosphat deposition (CPPD).

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurninga.

Helsta markmið meðferðar við kalkkristallagigt er að draga úr bólgu og verk og fyrirbyggja endurtekin köst sem gætu á endanum leitt til liðskemmda. Aldur, heilsufar, önnur lyf sem einstaklingur er að taka og hversu alvarlegt gigtarkastið er getur haft áhrif á hvaða meðferð er valin.

Kalkristallagigt er aðallega meðhöndluð með bólgueyðandi lyfjum, svokölluðum NSAID lyfjum. Ef einstaklingur þolir illa bólgueyðandi verkjalyf þá er stundum gefinn lítill skammtur af þvagsýrugigtarlyfinu Colchicin. Einnig er sterum, svokölluðum barksterum, í stungulyfjaformi sprautað í viðkomandi lið til að draga úr bólgu og verk.

Ég ráðlegg þér að panta tíma hjá þínum heimilislækni eða gigtarlækni og fá frekara mat á hvaða meðferð hentar þínu tilfelli best.

Gangi þér vel,

Auður Hávarsdóttir, hjúkrunarfræðingur.