Kærastan með byrjandi anorexíu?

Spurning:
Sælir.
Kærasta mín er kominn með byrjunareinkenni anorexiu. Hún er búin að vera með hana áður, og var búin að ná sér en er komin með hana aftur. Við erum nýbyrjuð saman og hvað get ég gert til að hjálpa henni?
Svo er það foreldrar hennar. Þau eru ekki sátt við að við séum saman af því ég er fyrrverandi dópisti (búin að vera edrú í 4 mánuði) og þau segja að ég sé of gamall fyrir hana (næstum 18). Hvernig get ég unnið traust þeirra, og hvernig get ég sýnt henni stuðning og hjálpað henni? Ég vil ekki leggja neinn þrýsting á hana eða neitt þannig. Hjálp

Svar:
Sæll,

 

Þú segir að kærastan þín hafi áður verið með anorexiu en hafi verið búin að ná sér. Fyrsta spurningin er hvernig hún fékk hjálp þá og hvort hún geti notað sömu aðferð nú? Ef hún hefur t.d. fengið hjálp hjá fagaðila þá, gæti hún kannski talað aftur við þann sama nú? Ég mæli allavega eindregið með því að hún tali við fagaðila s.s. geðlækni, heimilislækni, hjúkrunarfræðing, sálfræðing eða ráðgjafa til þess að fá aðstoð og til að byggja upp betri sjálfsmynd.

 

Það sem þú getur gert fyrir hana er að styðja hana í því að byggja upp heilbrigðari sjálfsmynd. Það er alls ekki heilbrigt að finnast maður verða að svelta sig til þess að standast einhverjar tilbúnar kröfur umhverfisins um tággrannan líkama. Flest okkar erum ekki þannig byggð og það er ekkert heilbrigt við það að vera að hrynja í sundur. Þú getur lítið gert nema að segja kærustunni þinni að það sem skipti öllu máli sé að hún sé sátt við sjálfa sig hvort sem hún er nokkrum kílóum þyngri eða léttari.

 

Annað sem þú getur gert er að hafa samband við Spegilinn en það eru fræðslu og forvarnarsamtök um átröskunarsjúkdóma.  Síminn hjá þeim er 661-0400 og heimasíða www.spegillinn.is.  Í þessum samtökum starfa m.a. aðstandendur sem geta örugglega gefið þér einhver góð ráð.

 

Í sambandi við það að fá foreldra hennar til þess að samþykkja þig þá er lítið hægt að gera annað en að láta góðu verkin tala.  Ef þau sjá hversu góður þú ert við hana og duglegur að styðja við bakið á henni í erfiðleikum hennar þá vonandi læra þau smám saman að taka þig í sátt svo framarlega sem þú heldur þér edrú.  Gangi þér vel!

 

 

Kær kveðja, Guðbjörg Daníelsdóttir, sálfræðingur hjá Geðhjálp.