Kartöflur og vatnsinnihald

Spurning:

Sæll Ólafur.

Ég var að lesa svar þitt við fyirspurninni um McDonalds fyrir fólk í megrun og gat ekki annað enn farið að velta fyrir mér hvernig allar þessar kaloríur bætttust við kartölurnar við steikingu ef aðeins 200 þeirra bættust við af úr fitunni. Þá eru samt eftir 250 sem hljóta þá að koma úr kartöflunun, en samt segirðu að aðeins 150 kaloríur séu í soðnum kartöflum. Tapast þá einhver næring úr kartöflunum við suðu? Og er það svo þá almennt við suðu?

Með kveðju,

Svar:

Komdu sæll.

Þakka skemmtilega spurningu! En svarið er einfalt. Svarið skýrist af umtalsverðu vatnstapi sem á sér stað í kartöflunni þegar hún er djúpsteikt. Sem dæmi má nefna að í 100 g af hráum kartöflum eru 79,7 g af vatni og hitaeiningagildið er 79 hitaeiningar; í 100 g af soðnum kartöflum eru 81,1 g af vatni og 73 hitaeiningar en í 100 g af djúpsteiktum kartöflum er eingöngu 52,5 g af vatni og hitaeiningagildið 254.

Af þessu má sjá að meira þarf af hráum kartöflum til framleiðslu á 200 g af djúpsteiktum heldur en soðnum kartöflum og skýrir það þann hitaeiningamismun sem kemur úr kolvetnum í því dæmi sem þú spyrð um.

Með kærri kveðju,
Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur