Koffínlaust kaffi á meðgöngu

Spurning:

Komið þið sæl.

Mig langar að leggja þessar spurningar fyrir ykkur. Er í lagi að drekka koffínlaust kaffi á meðgöngu og hvað má drekka mikið kaffi án þess að það skaði fóstrið?

Svar:

Ekki hef ég neins staðar séð að ekki sé í lagi að drekka koffínlaust kaffi. Ekki eru til nein öryggismörk yfir hvenær kaffi fer að verða skaðlegt fóstrinu. Nú er það svo að koffínið (og ýmis önnur efni) úr kaffinu fer yfir fylgjuna til fóstursins og hafa áhrif á það líkt og okkur. Munurinn er þó sá að líffæri fóstursins eru óþroskaðri en okkar og því er það lengur að útskilja ýmis efni, t.a.m. koffín. Þar af leiðandi getur það hlaðist upp í líkama fóstursins ef móðirin drekkur mikið kaffi, te eða kóladrykki eða borðar óhóflega af súkkulaði. Það er þó talið óhætt að drekka 2 – 3 bolla af meðalsterku kaffi á dag og best að dreifa því yfir daginn.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir