Kólesteról

Spurning:
Ég er einkaþjálfari og hef verið að þjálfa seinustu 2 árin og kom ákveðið vandamál sem ég hef ekki getað leyst. Það er með kólesteról? Ég þekki það svo sem ágætlega eða þar sem HDL og LDL eru slæma og góða kólesteról. Ég fékk kúnna sem fékk mig til að búa til matarprógram fyrir sig, sem ég gerði og nokkrum dögum síðar kom kúnnin til mín og sagði mér að mamma hans væri næringarfræðingu og að henn litist ekki á eggið sem ég setti á prógramið.
En í prógraminu er kólesteról magnið 510 mg. Þar af er 211 í egginu og 225 í kjúklingnum. Það sem ég á kannski erfitt með að sjá varðandi með kólesteról er að sjá hve mikið er af LDL og HDL hverri og einni fæðu? Er ekkert hámark sem manneldisráð gefur út þar sem maður getur séð hvar mörkin eru því ég þekki flest allt annað í kringum matarræði? Nú veit maður að það hafa alltaf veirð mikil rifrildi á milli næringasérfræðinga og oft mjög erfitt að ræða um næringu við þau hvað það varðar og þar af leiðandi er maður alveg hættur að treysta þeim þar sem þeir eru svo ýktir og með mismunandi staðhæfingar sem stangast á á milli þeirra.

Ég sagði við kúnna minn að ég héldi að þetta ætti ekki að vera hættulegt þar sem hann er á þessu mataræði í aðeins 1-2 mánuði en að öðru leyti bað ég hann um að fá að athuga þetta alveg áður en ég svaraði honum til fulls (ég vil nefnilega aldrei svara ? sem ég er ekki 100% viss með) Er það ég sem hef svona vitlaust fyrir mér eða er þetta einfaldlega hræðsla hjá almenningi ?? Ef ég hef svona vitlaust fyrir mér ætti ég að ath kólesteról þar sem ég borða 1 eggjarauðu á móti 4 eggjahvítum á dag til að binda saman eggin fyrir eggjaböku!!!!!!!!!!!!

Svar:
Það er góð afstaða hjá þér að leita upplýsinga um vafaatriði áður en þú veitir fólki persónulega ráðgjöf. Hvað varðar kólesterólið hefur þú greinilega dottið í sömu gryfju og margir sem eru að byrja að kynna sér þessi mál: Þú ruglar saman kólesteróli í mat og kólesteróli í blóði. Kólesteróli í mat er ekki skipt í "vont" eða "gott" kólesteról, það er allt jafnvont eða gott eftir því hvernig á það er litið.
Hins vegar er þessi skipting höfð um kólesteról sem mælist í blóði fólks, og er það þá byggt á því hvaða flutningspróteini kólesterólið tengist í blóðinu. Kólesteról sem er bundið HDL í blóðrásinni er oft nefnt "gott" kólesteról vegna þess að það eykur ekki líkur á hjartasjúkdómum eða æðakölkun. Það gerir hins vegar kólesteról sem er bundið LDL og því er það oft nefnt vonda kólesterólið. Mikið kólesteról í mat og mikil mettuð fita í mat hækka LDL kólesteról, þ.e. vonda kólesterólið í blóðinu. 350 mg á dag af kólesteróli úr fæðunni hefur oft verið nefnt sem efri mörk þess sem er æskilegt, t.d. í bandarískum ráðleggingum.
Manneldisráð hefur hins vegar ekki gefið út slíkt hámark, vegna þess að það er mettaða fitan sem hefur mun meiri áhrif á kólesteról í blóði heldur en hvað fólk borðar af kólesteróli. Í manneldismarkmiðum er því lögð áhersla á að takmarka mettaða fitu en ekki fjallað um kólesteról í mat sérstaklega. Allt kjöt, fiskur og mjólkurmatur inniheldur kólesteról, líka magrar vörur ekki síður en þær feitu.

Það er því engin önnur leið til að takmarka kólesteról í fæðu verulega en að borða lítið af kjöti og fiski og hefur Manneldisráð ekki talið rétt að leggja áherslu á slíkt, þar sem um góða prótein- og járngjafa er að ræða. Eggjarauður eru líka frægar fyrir mikið kólesteról og er eggjarauða á hverjum degi ávísun á mikið kólesteról úr fæðu. Ef mjög mikið er borðað af kjöti, fiski og annarri próteinríkri fæðu verður kólesterólið þó óhjákvæmilega líka mjög hátt í fæðunni. Hins vegar hækkar kólesterólið í blóðinu ekki endilega að sama skapi, ef fæðan er mögur og lítið af mettaðri fitu. Það er þó fleira sem mælir á móti því að borða allt of mikið af próteinríkri fæðu: Það getur valdið kalktapi úr beinum, er álag fyrir nýru og hefur verið tengt auknum líkum á krabbameinum. Svo bendi ég þér á heimasíðu Manneldisráðs, www.manneldi.is en þar er m.a. hægt að lesa og kynna sér bæklinginn: Ef kólesterólið mælist of hátt. Þar er útskýrt frekar um kólesteról í blóði og áhrif fæðunnar á það.

Laufey Steingrímsdóttir
Manneldisráð Íslands
Barónsstíg 47
101 Reykjavík
sími 585 1481
Heimasíða www.manneldi.is