Koma ávextir í veg fyrir að maður grennist?

Spurning:
Sæl/l
Ég hef spurningu varðandi ávexti. Svo er mál með vexti að ég er nýfarin að stunda hollari lífshætti, þ.e.a.s. hætt að reykja og reyni að borða hollara. Ég hef reyndar alltaf hreyft mig mikið, svo það er ekki vandamál, en þarf samt að losna við nokkur kíló. Borða fisk, túnfisk, grænmeti, gróft brauð og fleira hollt (og er að komast úr sælgætisvítahringnum).  En svo einnig er ég farin að borða mikið af ávöxtum. En svo frétti ég að þeir væru svo ríkir af kolvetni að ég ætti erfitt með að grennast út af þeim. Ég vil ekki trúa þessu, en heyrði þetta svo frá fleirum og vil því fá svar frá næringarfræðingi. Getur verið að ,,active" manneskja grennist ekki út af ávaxtaáti? Ég sem hélt að ég væri orðin svo dugleg.
Með von um svar og fyrirfram þökk, eplastelpan

Svar:

Komdu sæl. Ástæðan fyrir því að fólk fitnar er tengt því að viðkomandi neytir fleiri hitaeininga en hann brennir. Og þar sem ávextir gefa afskaplega fáar hitaeiningar miðað við þyngd og saðningargildi reynist fólki mjög erfitt að fitna af þeim. Sem dæmi má nefna að epli (200 g) gefur ekki nema um 100 hitaeiningar og banani (130 g) um 115 hitaeiningar. Til viðmiðunar má geta þess að súkkulaði svo sem nóakroppspoki (200 g) gefur um 1100 hitaeiningar og ein matskeið (15 g) af olíu eða smjöri gefur um 120 hitaeiningar. Ég vil hvetja þig til að lesa svar við fyrirspurn sem fjallar um hvaða aðferðir virka í baráttunni gegn aukakílóunum. Reyndar er það svo að kolvetni er það það orkuefni sem mannslíkaminn þarf mest á að halda og gera manneldismarkmið ráð fyrir að um helmingur orkunnar, í það minnsta, sé í formi kolvetna. Og fjöldamargar rannsóknir hafa sýnt fram á samband á milli offitu og lítillar neyslu kolvetnaríkrar fæðu – s.s. kornmetis, bauna, ávaxta og grænmetis en aftur á móti mikillar neyslu á fituríkum og eða fitu- og sykurríkum mat.Kveðja, Ólafur G. Sæmundsson, næringarfræðingur