Koma of stór eggbú í veg fyrir getnað?

Spurning:

Hæ, hæ.

Ég er 27 ára gömul og ég og maðurinn minn erum búin að vera að reyna að eignast barn í u.þ.b. 2 ár. Ég er búin að fara í allavegana rannsóknir, t.d. röntgen, sónar og blóðprufur, allt eðlilegt nema að prólaktín var aðeins of hátt, en læknirinn sagði að það hefði engin áhrif á þetta. Þegar ég fór í sónar út af blöðru í eggjastokknum, fannst henni eggbúin of stór. Ég veit ekki hvað það þýðir, en hún sagði að vegna þessa þyrfti ég lyf til að verða ólétt. Hún sagði einnig að blæðingarnar væru yfirleitt óeðlilegar hjá konum með svona eggjastokka en ég hef alltaf haft reglulegar blæðingar.

Maðurinn minn er einnig búinn að fara í sáðrannsókn tvisvar sinnum, fyrra skiptið kom þetta ekki vel út en seinna skiptið (fyrir u.þ.b. 4 mán. síðan) var allt eðlilegt. Núna er ég búin að taka 3 skammta af frjósemislyfi og vildi fá að vita hvað yfirleitt konur hafa þurft að taka marga skammta til að verða óléttar?

Eitt annað, ég er búin að vera í 6 ár alltaf mjög þreytt, mjög máttlaus í fótleggjunum að stundum næ ég ekki að standa í fæturna. Ég vinn bara hálfan daginn og þarf stundum að sleppa vinnu vegna máttleysis, ég er búin að fara á milli margra lækna en ekkert finnst að. Getur þetta eitthvað orsakað ófrjósemi? Getur verið eitthvað í hormónakerfinu sem er að valda þessu?

Svar:

Sæl.

Þú hefur verið í eftirliti hjá sérfræðingi og að sjálfsögðu átt þú að vera upplýst þegar um þessa hluti. E.t.v hefur þú ekki spurt nógu skýrt. Prólaktin getur skipt máli og þurft meðferðar við, ef egglos verða ekki regluleg eða án lyfja, en þar koma fleiri þættir til. Við verðum að treysta þínum sérfræðingi.

Það að sæðisprufa manns þíns var óeðlileg gæti þýtt að hann sé misgóður, sem aftur með sögu um óeðlileg eggbú hjá þér, benda til orsaka hjá ykkur báðum. Það getur þurft nokkuð margar meðferðir áður en árangur næst, en eins getur þurft að grípa til annarra aðgerða.

Þetta með máttleysið þitt er sennilega sér á parti og ætti að vera verkefni fyrir taugasjúkdómalækni ef aðrir finna ekki út úr því.

Það er ákveðið framhald sem þarf að verða á meðferð og rannsókn ykkar ef ekki gengur og ég hlýt að ætla að læknir þinn hafi ákveðið það þegar. Það gefst ekki vel að tveir læknar séu að leggja á ráðin um sama sjúkling nema það sé í samvinnu þeirra sjálfra og sjúklingsins.

Vona að þú verðir þunguð fljótt og gangi ykkur vel.

Kveðja,
Arnar Hauksson dr. med.