Komin 14 vikur á leið og alltaf hnerrandi

Spurning:
Ég er komin 14 vikur á leið og er alltaf hnerrandi og svo klæjar mig líka alltaf mjög mikið í nefið. Ég er að pæla hvort þetta sé ofnæmi eða eitthvað svoleiðis, en ég hef aldrei verið með ofnæmi fyrir neinu og það þekkist ekki í minni fjölskyldu. Ég er með kött á heimilinu en ég er búin að eiga hann í meira en ár og átti annan kött í ár á undan þessum, þannig að það getur varla verið kötturinn. Veist þú eitthvað hvað þetta gæti verið?

Svar:
Það sem þú lýsir er mjög dæmigert fyrir ofnæmi eins og kattaofnæmi eða frjókornaofnæmi. Þótt þú hafir ekki verið með kattaofnæmi áður getur það myndast skyndilega. Réttast væri fyrir þig að bera þetta undir heimilislækninn þinn.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir