Komin 24 vikur og finn fyrir sting?

Spurning:
Ég er komin 24 vikur á leið og allt gengið vel og ég farin að finna fyrir hreyfingum fyrir þó nokkru síðan. Aftur á móti er ég farin að finna fyrir sting neðarlega hægra megin í kviðnum/leginu. Ég finn aðallega fyrir honum þegar ég þen út magann eða slaka vel á honum og einnig þegar ég held á 2 ára barni mínu. Stundum þegar ég hef ýtt framan á bumbuna þá hef ég líka fundið fyrir stingnum. Þetta er bara á einum ákveðnum stað. Er þetta eitthvað sem ég ætti að hafa áhyggjur af og láta skoða frekar eða er þetta eitthvað sem getur fylgt? Ein sem vill vera viss.

Svar:
Svona stingir undir bumbunni koma yfirleitt vegna togs á himnurnar og böndin sem halda leginu á sínum stað. Oft er þetta meira áberandi öðrum megin og ef þetta fer ekkert versnandi eða verður alveg stöðugt þarft þú sennilega engar áhyggjur að hafa. Segðu þó ljósmóðurinni þinni frá þessu, hún getur skoðað hvort um eitthvað annað er að ræða.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir