Spurning:
Góðan daginn.
Mig langaði að spyrja um svolítið svo ég geti sofið róleg. Ég á von á mínu fyrsta barni og er komin tæpar 28 og hálfa viku og ég hef fundið fyrir svona titringi í maganum, eins og ég sé með titrara í maganum eða rosa fjörfisk. Ég er búin að heyra að þetta séu óþroskaðar hreyfingar hjá barninu og líka að það gæti verið að barnið hafi sparkað í einhverjar taugar. Hvað er þessi titringur og er þetta eitthvað sem ég þarf að hafa áhyggjur af, eitthvað sem er hættulegt eða eitthvað því um líkt?
Svar:
Sæl og takk fyrir fyrirspurnina.
Það sem þér hefur verið sagt um hreyfingar barnsins getur verið rétt þar sem að hreyfingarnar breytast eftir 28 viku, þær verða reglulegri og taktfastari. Ef þetta tengist því þá ættir þú að fara að finna breytingu á því þar sem að þú ert komin rúmar 28 vikur. Annað sem okkur dettur í hug er að þetta geti hugsanlega verið hiksti hjá barninu. Það er í raun ekki vitað nákvæmlega afhverju ófædd börn hiksta í móðurkviði en líklegar skýringar tengjast því að barnið sýgur fingur og kyngir legvatni. Ég held að þetta sé ekkert til að hafa áhyggjur af en endilega nýttu ljósmóðurina þína í mæðravernd ef þú ert að velta einhverju svona fyrir þér.
Kærar kveðjur og gangi þér vel,
Ásthildur Gestsdóttir ljósmóðir og hjúkrunarfræðingur