Komin 7 vikur og finn ekki fyrir neinu ?

Spurning:
Fór til læknis og hann tók þungunarpróf sem var jákvætt. Hann sagði mér að ég væri komin 6 vikur og á morgun verða það 7 vikur. Ég hef ekki fundið fyrir neinu. Ældi einu sinni sem var þá í byrjun 5 viku öllum morgunmatnum en svo eldhress og líður rosa vel og finnst ég ekki vera með nein einkenni þess að ég sé ófrísk. Er þetta alveg eðlilegt? Annað, ég tók lýsi og vítamín án a og d vítamína (inniheldur 200 ug af fólinsýru) en ákvað að hætta að taka lýsið þar sem ég borða mikið af ávöxtum og grænmeti + tek inn Fólinsýru 400 ug, og því hrædd við að þess vegna gæti ég fengið of mikið af A-vítamíni. Er þetta vitleysa og er 600 ug of mikið af fólinsýru? Borða nefnilega líka í morgunmat Albran með Special K.

Svar:

Þú mátt vera glöð yfir að vera ein þeirra kvenna sem líður vel á meðgöngu, við heyrum nefnilega mikið oftar frá þeim sem líður ekki vel. En það eru margar konur sem aldrei finna nokkuð fyrir morgunógleði eða öðrum kvillum á meðgöngu svo þetta er alveg eðlilegt. Hvað varðar vítamínin þá ættir þú endilega að halda áfram að taka lýsið þar sem í því eru fitusýrur sem hafa góð áhrif á þroska heila og tauga og að auki er A- og D- vítamín ekki í miklu magni í grænmeti heldur mest í fiski og feitum dýraafurðum. Ráðlagður dagskammtur af fólínsýru fyrir barnshafandi konur eru 400 míkrógrömm en fólinsýra er vatnsleysin svo það gerir ekki mikið til að fara yfir þann skammt.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir