Komin 8 vikur og er með verki?

Spurning:
Ég  er ófrísk, komin rúmar 8 vikur. Ég er búin að vera mjög áhyggjufull. Ég fæ mjög oft mikla verki í móðurlífið sem eru verstir öðru megin, eins og við annan eggjastokkinn. Verkirnir koma mjög snöggt og hverfa eftir smá stund. Það hafa samt ekki komið neinar blæðingar. Gæti þetta verið utanlegsfóstur? Ég er alltaf með ógleði og eymsli í brjóstum og hef tekið fleiri óléttupróf þannig að ég er viss um að fóstrið er á lífi. Það koma líka vondir verkir neðst í bakið og ég er hrædd um að ég sé með þvagfærasýkingu.

Ég er líka búin að vera mjög slöpp og þreytt og fæ oft svima. Ég pantaði tíma í mæðraskoðun en ég fæ ekki að koma fyrr en ég er gengin með 3 mánuði. Ég reyndi að fá tíma hjá kvensjúkdómalækni en svörin sem ég fékk allstaðar voru að það tekur enginn við nýjum sjúklingum (en sá sem ég hef farið til áður er hættur störfum). Ég er mjög óhress með þetta, ég veit ekki hvert ég get leitað.

Þessi vefur hefur hjálpað mér mikið. Takk fyrir það.

Svar:
Þú verður strax að láta lækni líta á þig og þýðir ekkert að bíða fram til 12 vikna meðgöngu með það. Talaðu við heimilislækninn þinn eða hringdu á göngudeild kvennadeildar Landspítala við Hringbraut (eða næsta sjúkrahús ef þú býrð úti á landi). Þótt ekkert blæði getur verið um að ræða utanlegsfóstur og því lengur sem beðið er með staðfestingu á því þeim mun meiri hætta er að það valdi skaða. Aðrar mögulegar orsakir svona verkja eru vindverkir vegna hægðatregðu eða ristilkrampa, botnlangabólga eða blöðrur á eggjastokkum. En láttu líta á þetta svo hægt sé að útiloka eða staðfesta utanlegsfóstur og gera viðeigandi ráðstafanir.

Kveðja, Dagný Zoega, ljósmóðir