Kostir og gallar kaffidrykkju

Spurning:

Ég er námsmaður sem sá mér þann kost vænlegastan þegar ég byrjaði í Háskólanum að byrja að drekka kaffi til að geta vakað yfir bókunum. Ég hins vegar tel mig meðvitaðan um heilsuna og myndi gjarnan vilja fá sérfræðilega útlistun á kostum og göllum sem það hefur í för með sér að drekka mikið kaffi, þá bæði fyrir líkama og sál.

Með kærri þökk

Svar:

Koffein sem meðal annars er að finna í kaffi, te, kóladrykkjum og ýmsum orkudrykkjum hefur örvandi áhrif á líkamann. Það örvar meðal annars heilann og það er ástæðan fyrir því að kaffið heldur þér vakandi. Mælt er með að neyta drykkja sem innihalda koffein í hófi og hafa þá aðeins til viðbótar við aðra drykki en ekki í staðinn fyrir þá. Koffein virðist stuðla að hækkuðum blóðþrýstingi og það hefur þvaglosandi áhrif. Mikil inntaka koffeins getur leitt til magaóþæginda, taugaveiklunar, aukins hjartsláttar, höfuðverks, niðurgangs og svefnleysis, svo eitthvað sé nefnt. Þessir þættir geta svo sannarlega haft slæm áhrif á sálarlífið. Að auki hefur rannsókn Hjartaverndar leitt það í ljós að kaffineysla tengist hækkun á LDL kólesteróli í blóði manna, en LDL kólesterólið er í daglegu tali kallað „slæma“ kólesterólið þar sem það er einn af aðaláhættuþáttum hjarta- og æðasjúkdóma. Ég get því ekki mælt með miklu kaffiþambi og mæli frekar með öðrum heilbrigðari aðferðum við að halda sér vakandi yfir bókunum. Standa upp frá bókunum við og við, borða reglulega hollan mat, nota vatn eða sódavatn til drykkjar eða narta í ávexti eða grænmeti við lesturinn.

Gangi þér vel.
Ingibjörg Gunnarsdóttir, næringarfræðingur