Kristin trú og sjálfsfróun?

Spurning:
Sæl Jóna. Mig langar að spyrja að svolitlu sem ég þori ekki að spyrja að í kirkjunni minni. Ég snérist til Guðstrúar fyrir nokkrum mánuðum og gekk í einn af þessum söfnuðum utan þjóðkirkjunnar. Eitt af því sem ég hef svolitlar áhyggjur af og ég get bara ekki fengið mig til að spyrja um er hvort þú vitir hvort sjálfsfróun stangist á við trúarbrögð Biblíunnar. Eins og ég segi er þetta allt saman nýtt fyrir mér og hef ég ekki fengið svör við miklu ennþá.

Ein forvitin.

 

 

Svar:

Komdu sæl. Biblían minnist ekki einu orði á sjálfsfróun. Það sem Onan karlinn gerði á sínum tíma hafði ekki neitt með sjálfsfróun að gera, eins og margir halda, heldur viðhafði hann það sem við nefnum á okkar tímum ,,rofnar samfarir”. Hann vildi ekki gera konu látins bróður síns þungaða og lét þess vegna sæði sitt falla í grýtta jörð (Gen.38:9). Biblían minnist heldur ekki á fóstureyðingar, getnaðarvarnir, munngælur við kynfæri og marga aðra kynhegðun svo það er hæpið að leita svara þar. En þar sem minnst er á kynferðismál í Biblíunni hefur Gamla testamentið vinninginn. Í Nýja testamentinu er það helst Páll postuli í fyrsta Korintubréfi sem minnist á málefni sem tengjast kynlífi. Það er ljóst að hinir ólíku söfnuðir- á okkar tímum- sem aðhyllast kristna trú, túlka hver eftir sínu höfði það sem stendur í Biblíunni um kynferðismál. Á meðan einn söfnuður tekur jákvæðan pól í hæðina og velur að líta á líkamann sem ,,musteri guðs” (1 Kor.6:19) og ástina sem umber allt (1 Kor. 13:4-7), þá velur annar söfnuður að líta á alla aðra kynhegðun en þá sem leiðir til getnaðar sem óæskilega s.s. samkynhneigð þótt Biblían minnist aldrei á kynhneigð sem aðskilið fyrirbæri heldur ávallt í samhengi. Svarið er því í stuttu máli þetta: Biblían gefur engin svör eða fyrirmæli um hvort sjálfsfróun stangist á við kristna trú því þar er hvergi minnst á sjálfsfróun.

Jóna Ingibjörg Jónsdóttir
Hjúkrunarfræðingur – kynlífsráðgjafi