Fyrirspurn:
Mig langar að spyrja um kuldaköst sem konan mín er að fá. Nú er svolítið um liðið síðan legið og eggjastokkar voru teknir, en konan mín er 41 árs gömul. Nú hef ég heyrt að þessar aðgerðir flýti fyrir breytingarskeiði kvenna. Málið er að konunni minni er mjög oft kalt þótt að það sé heitt innandyra, þá situr hún undir teppi og kvartar yfir kulda. Hafið þið einhver ráð með þetta vandamál hennar?
Aldur:
41
Kyn:
Kvenmaður
Svar:
Sæll
Þegar legið er tekið eru eggjastokkar oft skildir eftir. Ef þeir eru teknir þá hættir náttúrulega kynhormónaframleiðsla þeirra og afleiðingin er breytingarskeið nema að hormón séu gefin í töfluformi í staðin. Ef konunni er sífellt kalt er rétt að láta athuga starfsemi skjaldkirtils. Kuldatilfinning getur verið merki um vanstarfsemi hans. Þið ættuð að ræða við lækni ykkar um þetta vandamál.
Með kveðju,
Gunnlaugur Sigurjónsson
Læknir