Kuldi

Góðan dag.
Ég er með vanvirkan skjaldkirtil og gigt (vefja og slit), hef tekið Levaxin hormón í 19 ár og og gildin oft verið í lægri kantinum. Fyrir um ári var skammturinn lækkaður af lyfinu þar til ég var komin í gott jafnvægi en upp frá því fór mér að verða svaklalega kalt. Ég hafði fundið kulda af og til áður en núna er ég bara ísköld. Hendur og fætur eru sérstaklega slæm og þessu fylgja auðvitað miklir verkir og ég á orðið erfitt með allar athafnir. Ég heyri hjá öðrum með vanvirkni í skjaldkirtli að mjög margir kannast við kulda. Sumir tengja það við járnskort, blóðleysi eða vitamínskort en allt þetta mælist í lagi hjá mér. Hafið þið heyrt um þetta og vitið þið hvort eitthvað sé hægt að gera?

Sæl/ll og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er rétt að þetta er þekkt hjá einhverjum hópi fólks með vanvirkan skjaldkirtil og er þá eins og levaxin eitt og sér virki ekki nægilega á öll einkenni, þó svo niðurstöður blóðprufu segi annað.  Hjá þeim hópi hefur það reynst sumum gott að styðja ennfremur við skjaldkirtilinn með náttúrulegum leiðum eins og joði, selenium og b-vítamíni. Annars ráðlegg ég þér að heyra aftur í þínum lækni og/eða fá álit hjá innkirtlasérfræðingi sértu ekki hjá slíkum.

með kveðju,

Lára Kristín Jónsdóttir

Hjúkrunarfræðingur.