kuldi á fótum

stöðugur kuldi á fótum veldur oft svefnvandamálum

Sæl/l og takk fyrir fyrirspurnina.

Fótakuldi er oft  án viðhlítandi skýringa og getur legið í fjölskyldum og þá gildir að sofa í sokkum og/eða setja hitapoka til fóta áður en farið er upp í rúm.

Æfingar og ganga styrkir hjarta-og æðakerfið, eykur brennslu og hitamyndun í líkamanum. Ef þú ert kyrrsetumanneskja getur  hjálpað að stunda þolþjálfun.

Fótakuldi getur annars verið  vegna truflunar á blóðflæði eða taugaboðum  í útlimum.   Minnkað blóðflæði getur verið vísbending um æðakölkun sem er oft fylgikvilli reykinga,sykursýki, blóðfituhækkunar  og annarra sjúkdóma. Blóðleysi eða járnskortur getur einnig truflað blóðflæði til útlima. Eins fylgja ýmsum sjúkdómum  skert skynjun og truflun á taugaboðum.

Minnkað blóðflæði getur einnig verið vegna þess að háræðar dragast saman.  Ef umhverfi er kalt hefur grannt fólk minni fitu til að einangra hita og þá dragast saman æðar í útlimum til að halda blóðflæði og hita uppi í í búk.  Raynaud´s syndrome er einkenni þar sem æðar í fingrum eða tám dragast saman  sérstaklega við hitabreytingar. Það er ástand sem gengur yfir á einhverjum mínutum.

Ef verkir fylgja fótakulda skaltu leita til læknis og eins ef fætur eru heitir viðkomu þrátt fyrir tilfinningu fótakulda.

Gangi þér vel.

Guðrún Ólafsdóttir, hjúkrunarfræðingur