Kvíði og hræðsla í samskiptum við fólk

Spurning:

Sæl.

Ég veit í rauninni ekki hvert ég á að leita.

Sonur minn á í miklum vanda sem er hræðsla, kvíði og öll samskipti við fólk.

Hann er 24 ára gamall og á 4 ára yndislega dóttir og sambúð að baki.

Hann er ekki í vinnu skuldirnar og hrannast upp.

Hér er ekki allt upp talið. hvert á hann/ég að snúa mér?

Kveðja.

Svar:

Sæl vertu.

Ef þú metur stöðuna þannig að hann þyrfti að komast undir læknishendur myndi ég ráðleggja ykkur að fara til Göngudeildar geðdeildar Landspítalans. Þar er opin bráðaþjónusta frá 8.00-23.00 alla daga. Það er ekki hægt að panta tíma en best að leita á morgnana milli 9.30 og 12.00 ef hægt er. Göngudeildin er á horni Snorrabrautar og Hringbrautar keyrt inn frá Eiríksgötu. Þú kemur mjög sennilega til með að hitta geðhjúkrunarfræðing og geðlækni sem aðstoða þig/ykkur við að meta stöðuna.

Mig langar einnig að nefna tvö úrræði annars vegar hér í Geðhjálp Túngötu 7 og eins í Klúbbnum Geysi Ægisgötu 7. Hér í Geðhjálp eru til dæmis sjálfshjálparhópar þunglyndis og kvíða. Hér er einnig ákveðin endurhæfing sem miðar út frá því að fást við daglegt líf og sjálfsstyrkingu. Í Klúbbnum Geysi er atvinnumiðlun en einnig staður sem hægt er að sækja til að rjúfa einangrun og koma sér af stað út í lífið. Það væri hægt að byrja á því að við myndum hittast og fara yfir möguleikana í stöðunni en réttast að leita til læknis fyrst ef þörf er á.

Með bestu kveðju.
Auður Axelsdóttir, iðjuþjálfi Geðhjálp.