Kvíði veldur því að ég missi stinningu, hvað er til ráða?

Spurning:

Sæll Sigtryggur.

Þannig er mál með vexti að ég er 20 ára gamall og hef verið með stelpu í tvo mánuði. Við erum hamingjusöm saman en það er eitt sem mér líður illa út af. Þegar við ætlum að hafa kynmök gengur allt eðlilega fyrst í stað. Ég finn fyrir lönguninni þegar við erum að fara úr fötunum og hitum upp.

En þegar á hólminn er komið, það er að segja þegar við ætlum að ganga alla leið grípur mig einhver kvíði og ég hætti að finna fyrir lönguninni til að hafa kynmök. Þar af leiðandi fer allt blóðið úr getnaðarlimnum og búið spil. Þetta hefur gerst fimm sinnum og veldur mér mjög miklu hugarangri. Ég veit það sjálfur að ég er ekki getulaus, ég næ fullnægjandi stinningu þegar ég er einn með sjálfum mér en það er eins og ég geti það ekki með stúlkunni. Hvaða ráð getur þú gefið mér?

Ég fer oft í voðalegt þunglyndi þegar ég hugsa um þetta í dagsins önn og kem engu í verk sökum vanlíðunar, ég virðist vera sá eini í heiminum sem þetta hrjáir, alla vega heyrir maður aldrei um svona lagað nema það sé líkamlegt getuleysi.

Ég veit þið fáið mikið af fyrirspurnum en ég veit ekki alveg hvað ég á að gera þannig að mér þætti ótrúlega gott að fá einhverjar ráðleggingar.

Kær kveðja.

Svar:

Sæll.

Það er aðeins í fáum tilvikum, sem stinningarvandi er líkamlegur. Í langflestum tilvikum stafar hann af nákvæmlega því sem þú lýsir, þ.e. kvíða. Og trúðu mér, þú ert langt frá því að vera einn um þetta vandamál. Langflestir karlmenn lenda auk þess einhvern tíma í því að fá ekki stinningu vegna kvíða, þó algengast sé að það gerist ekki oft í röð. Í þeim tilvikum að það gerist oft í röð magnast kvíðinn og hann fer að koma löngu áður en til samfara kemur.

Þú lýsir eðlilegum kynferðislegum áhuga, enda stendur þér skv. því sem þú segir allt þar til að kemur að samförum. Kvíðinn gagnvart því að standa sig ekki í samförunum er upphaflegi kvíðinn, en síðan bætist við kvíðinn um að stinningin haldist ekki, þegar þetta hefur gerst tvisvar í röð eða oftar. Meginorsökin er of lélegt sjálfstraust í kynlífi, sem síðan er oftast tengt því að sjálfstraustið almennt sé ekki nógu gott.

Þið þurfið að leita ykkur aðstoðar sérfræðings í kynlífsmeðferð saman, en vegna þess hve sambandið er ungt, myndi ég ráðleggja þér að fara fyrst einn. Hins vegar er alveg ljóst, að það er ekki hægt að vinna á þessu nema að þið gerið það í sameiningu. Eins og ég hef svo oft sagt, þá er kynlífsvandi samskiptavandi tveggja aðila og því verða báðir að taka þátt í lagfæringunni.

Ef samband ykkar er gott, ráðlegg ég þér að leita núna aðstoðar. Ef sambandið slitnar, munt þú lenda í sömu erfiðleikum með annarri konu. Því fyrr sem þú nærð að laga þetta á meðan þú ert í sambandi því betra. Það er mjög erfitt að laga þetta ef þú ert ekki í föstu sambandi, því eins og ég sagði áðan þá er þetta samskiptavandi og samskiptavanda er ekki hægt að laga ef ekki er um nein samskipti að ræða.

Með bestu kveðju og von um að þú drífir í því að leita þér aðstoðar,
Sigtryggur Jónsson, sálfræðingur