Fyrirspurn:
Maðurinn minn var með kynfæravörtur fyrir u.þ.b. 16 árum, er mögulegt að þær geta komið aftur, eða jafnvel smitað mig þó að ekkert sést hjá honum, við erum búin að vera saman í 12 ár og hvorugt okkar hefur haldið framhjá.
Svar:
Komdu sæl,
Veiran sem veldur kynfæravörtum getur verið til staðar í líkamanum í mánuði eða ár eftir að vörturnar hverfa. Það er sem sagt hægt að smitast af einstaklingi sem ekki hefur neinar sýnilegar vörtur. Þó er algengt að líkaminn ráði sjálfur niðurlögum veirunnar eftir að vörturnar eru fjarlægðar eða hverfa. Til eru margar tegundir veira sem valda vörtum og sumar þeirra hafa verið tengdar frumubreytingum í leghálsi kvenna. Það er þess vegna mikilvægt fyrir þig að fara reglulega í krabbameinsskoðun (rétt eins og fyrir allar konur). Ef þig grunar að þú sért smituð af vörtum ráðlegg ég þér að fara í skoðun til kvensjúkdómalæknis – þetta er óþægilegt og best að losna við sem fyrst.
Með kærri kveðju,
Ragnheiður Eiríksdóttir, hjúkrunarfræðingur