Kynfæravörtur, nokkrar spurningar?

Spurning:
Góðan daginn.
Ég greindist með kynfæravörtur árið 2000 og hef þurft að fara í nokkrar aðgerðir vegna þessa, þ.e. svæfing þar sem þurfti að brenna vörturnar af. Ég hef líka notað mikið áburðinn sem brennir vörturnar af, en það virkar stutt. En ég hef verið að lesa um það að ákveðnar tegundir af vörtum geta valdið frumubreytingum, þ.e. krabbameini í legi og stundum ófrjósemi. 1) Hvernig get ég vitað hvaða tegund ég er með af vörtum og hvort ég er með þessar andstyggilegu tegundir? 2) Hvað get ég gert til að fyrirbyggja að vörturnar komi alltaf aftur og hvað get ég gert til að losna við veiruna þ.e. er einhvern veginn hægt að lækna þennan sjúkdóm? Ég er mjög áhyggjufull vegna þessa, því faðir minn lést núna í apríl útaf krabbameini og ég vil gera allt til að fyrirbyggja krabbamein í legi. 3) Svo langar mig líka til að spurja hvort kynfæravörtur geti verið undir tungunni? Er með litla sepa/vörtur undir tungunni. Ef svo er hvað er þá hægt að gera til að losna við þær? 4) Eitt enn varðandi vörturnar. Ef vörturnar láta ekkert á sér kræla í kannski ár, er þá óhætt að sofa hjá án þess að smita? Hvernig getur maður fyrirbyggt það að smita? Ef smokkurinn er eina leiðin, hvernig geta þá hjón sem hafa áhuga á því að eignast barn saman, gert það, án þess að smita hinn aðilann? Ég vona að þið getið svarað mér því þessar spurningar hvíla mjög þungt á mér og ég er mjög kvíðin útaf þessu. Með fyrirfram þökk

Svar:
Sæl

Kynfæravörtusýking er kynsjúkdómur af völdum veiru sem kölluð er Human papillomavirus eða HPV.  Það eru til meira en 100 mismunandi tegundir af HPV, þar af geta rúmlega 30 valdið kynsjúkdómnum.Nokkrar eru taldar líklegri en aðrar til að valda frumubreytingum í leghálsi og jafnvel á tippi.Ef þú hefur verið að lesa þér eitthvað til þá hefur þú kannski séð að HPV-6 og HPV-11 eru þær veirur sem valda oftast vörtunum sem maður sér. Þær geta valdið frumubreytingum í leghálsi en mjög sjaldgæft er að þær valdi krabbameini. HPV-16 og HPV-18 (og reyndar mun fleiri) valda frekar krabbameini í leghálsi, þessar veirur mynda þó oftar öðruvísu vörtur.  Vöxturinn sem þessar veirur valda er vanalega flatur og nánast ósýnilegt.Athugaðu þó að flestar HPV sýkingar hverfa með tímanum og valda ekki krabbameini.Það breytir í sjálfu sér ekki miklu fyrir þig hvaða veiru þú ert sýkt af, hættan er alltaf fyrir hendi og það eina sem þú þarft að gera til að koma í veg fyrir krabbamein er að mæta í krabbameinsskoðun reglulega. Þá er tekið strok frá leghálsinum (pap-smear, ef þú vilt fletta því upp) sem greinir afbrigðilegar frumur. Séu einhverjar afbrigðilegar frumur í leghálsinum þá eru þær vanalega teknar í burtu í lítilli aðgerð sem kölluð er keiluskurður.Þetta kerfi er svo gott að ef konur mæta í sína skoðun þá þurfa þær ekki að hafa áhyggur af krabbameini af völdum HPV – þú getur fræðst betur um þetta á heimasíðu krabbameinsfélagsins www.krabb.isÉg get í raun ekki gefið þér nein ráð varðandi það hvernig hægt sé að losna við veiruna fyrir fullt og allt. Hjá flestum virðast þær hverfa með tímanum en ekki er vitað af hverju, það er ekki til nein meðferð við veirusýkingunni, aðeins leiðir til að drepa sjálfa vörturnar eins og þú hefur reynt.Þú spurðir líka um sýkingar í munni, það er rétt að vörturnar geta komið fram í munni og koki og stundum jafnvel á raddböndum. Þær hafa þá að oftast sýkst við munnmök. En það eru oft einhverjir saklausir flipar undir tunginni, þú skalt láta lækninn þinn kíkja á þetta næst þegar þú hittir hann ef þetta truflar þig.Smokkurinn er að sjálfsögðu besta forvörnin og eftir því sem fólk sefur hjá fleiri einstaklingum þá aukast líkurnar á sýkingu. Ef þú hefur verið einkennalaus í einhvern tíma (t.d. 3 mánuði) og ert í sambandi þá eru líkurnar í smiti í lágmarki og þú verður að ræða það við þinn spússa hvort það sé ekki þess virði að sleppa smokknum. Athugaðu líka að smokkurinn er ekki fullkomlega öruggur, sérstaklega ekki þegar kemur að kynfæravörtum, þær geta nefninlega smitast þegar húð snertir húð og við munnmök eins og áður sagði. Þess vegna greinist sjúkdómurinn stundum hjá stelpum sem aldrei hafa haft samfarir.Flestir sem hafa þennan sjúkdóm hafa lært að lifa með honum og átta sig á því að þetta er langt frá því að vera dauðadómur.  Þú verður að átta þig á því að 50-75% allra þeirra sem lifa virku kynlífi hafa smitast af einhverri af þessum 30 veirum og geta haldið áfram að lifa góðu kynlífi.Það sem þú þarft því að gera er að fara varlega, mæta í krabbameinsskoðun þegar þú ert kölluð til og ef þú reykir þá skaltu hætta því (getur aukið líkur á frumubreytingum).Gangi þér vel