Kynfæravörtur – smitleiðir?

Spurning:
Hæ hæ, ég var svona að hugsa!
Ef að maður hefur verið með kynfæravörtur og búinn að láta brenna þær af, fær maður ör? Getur maður smitað eftir að þær hafa verið teknar? Ef að maður er með strák seinna og á eftir að vera með honum í mjög langan tíma, er þá óhætt að hætta að nota smokkinn þegar maður hefur verið með þessar vörtur og maður veit að hann er ekki með neitt? Eða ef að hann hefur kannski líka verið með þetta einhvern tímann, getur eitthvað gerst þá?
Með fyrirfram þökk

Svar:

Sæl
Þegar vörtur eru brenndar í leggöngum myndast stundum lítil ör sem ekki eru
eins teygjanleg og slímhúðin í kring. Þetta gengur þó oftast til baka.
Já, maður getur smitað eftir að vörturnar hafa verið teknar.
Ef þú ert að byrja með strák sem þú átt eftir að vera með lengi þá verðurðu
að ræða þetta við hann. Þú verður að segja honum að þú hafir smitast af
kynfæravörtum og að þó svo að þú hafir farið í meðferð þá sé það ekki
trygging fyrir því að þú sért ekki smitandi.
Þið ættuð að minnsta kosti að nota smokkinn fyrst um sinn meðan þið eruð ekki
viss. Það eru líka mestar líkur á að vörturnar komi aftur (ef þær koma
aftur) á fyrstu 3 mánuðunum eftir að þær hafa verið brenndar í burtu. Því
ættuð þið að nota smokkinn í að minnsta kosti þann tíma.

Kveðja,
Jón Þorkell   Forvarnarstarf læknanema