Kynlíf á meðgöngu?

Spurning:
Þannig er að ég er komin rúma fimm mánuði á leið og er með verk í lífbeininu (sem er álagstengdur þannig að ég finn ekki til þegar ég sit eða ligg). Í síðustu mæðraskoðun þá var mér sagt að ég væri með grindarlos og ráðlagt hvað ég gæti gert til að minnka verkinn, eins og ganga hægar og sitja í réttri stöðu og svoleiðis. Vandamálið mitt er að kynlíf okkar hjóna er frekar dauft því að mér finnst hreinlega vont að hafa samfarir. Ef við reynum þá þoli ég mjög stutt við því annars verður mér virkilega illt og verkurinn lengi að fara (verkur frá leghálsinum). Allt annað er mjög gott, viðkvæmnin tengist bara leghálsinum sjálfum. Mig vantar svo að vita hvort að þetta tengist lífbeininu eða hvort þetta sé kannski eitthvað allt annað.
Kær kveðja.

Svar:
Það er líklegt að hafir þú verki í lífbeininu virki þeir eins og verkir í leghálsi. Sé það þannig gæti fjórfótastelling verið góð í samlífinu og þá ættir þú ekki að finna mikið til. Sé þetta hins vegar verkur frá leghálsi þarf að athuga það nánar því það gæti bent til bólgu eða sýkingar í honum. Svo gefur það auðvitað auga leið að á meðgöngu þarf að ástunda svolítið varlegra kynlíf en venjulega er óhætt og mörgum konum finnst óþægilegt ef limurinn fer mjög djúpt inn. Hann kemst þó dýpra í fjórfótastellingu vegna þess að leghálsinn teygist aðeins ofar þannig.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir