Kynlíf og frjósemislyfið Pergotime?

Spurning:
Góðan dag!
Ég er að taka lyfið Pergotime til að auka frjósemina, en ég er að spá í það hvort að egglosið seinki eitthvað við það. Ég tók fyrst lyf í 14 daga til að framkalla blæðingar og á 5. degi blæðinga tók ég Pergotime í 5 daga (3. dagurinn í dag), en svo fannst mér einsog læknirinn segði mér að vera dugleg að stunda kynlíf 10 dögum seinna, en þá eru komnir 20 dagar…ekki satt, en ég hélt að það ætti að taka 14 daga frá 1. degi blæðinga. Getur einhver sagt mér til um þetta?  Það er nefnilega ,,soldið" erfitt að ná í þennan blessaða lækni minn!!!!!

Svar:
Ágæti fyrirspyrjandi,

Það er mjög mikilvægt að vandað sé til með lyf og ráð ef vel á að ganga þegar reynt er að verða þunguð. Ég held að læknirinn þinn hafi mismælt sig eða þú misskilið hann með þessa tíu daga, sennilega hefur hann ætlað að segja að 10 dögum eftir að þú byrjar á Pergotiminu eigir þú að vera dugleg. Hins vegar er það vel þekkt að egglos verður ekki alltaf á útreiknuðum tíma, það eru konur sem svara mun sneggra og aðrar seinna. Það verður einnig að hafa í huga. Því er mikilvægt að þú og þinn læknir setjið ykkar plan vel niður.

Bestu kveðjur,
Arnar Hauksson dr med.