Lágsæt fylgja?

Spurning:
Ég er 20 ára gömul og er á 23. viku með mitt fyrsta barn en þegar ég fór í 19 vikna sónar þá sagði læknirinn að fylgjan væri frekar neðarlega. Mig langaði bara að spurja hvort að því fylgdi nokkur hætta fyrir mig eða barnið.

Svar:
Sé fylgjan mjög lágsæt þannig að hún liggi út á leghálsinn getur það skapað hættu fyrir móður og barn í fæðingu ef leghálsinn opnast inn í fylgjuna og það blæðir frá æðum hennar. Yfirleitt færast þó lágsætar fylgjur ofar í legið þegar tognar á því eftir því sem á meðgönguna líður. Væntanlega hefur þér verið boðinn tími um 34 vikna meðgöngu til endurmats á fylgjustaðsetningu.Ef ekki skaltu spurja ljósmóðurina þína út í þetta.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir