Spurning:
Mig vantar upplýsingar um kynlíf á meðgöngu. Þannig er að ég geng með mitt annað barn, í nítján vikna sónar fékk ég að vita að fylgjan væri lágsæt. Í tuttugustu og annarri viku fór að blæða eftir samfarir og fór ég upp á meðgöngudeild Landspítalans. Þar skoðaði læknir mig og mér var sagt að ég og maðurinn mættum ekki stunda kynlíf í bili. Það sem mig langar að vita er hversu lengi megum við ekki stunda kynlíf?
Svar:
Sæl.
Yfirleitt færist lágsæt fylgja ofar eftir því sem líður á meðgönguna og það teygist á leginu og er venjan að skoða aftur fylgjustaðsetninguna við 34 vikur. Það er erfitt að segja til um hversu lengi þið þurfið að bíða með samfarir – það fer allt eftir umfangi og eðli blæðingarinnar sem kom hjá þér. Í sumum tilvikum getur þurft að sleppa samförum alla meðgönguna en oftast er í lagi að hefja aftur samfarir þegar sýnt þykir að fylgjan sé komin ofar. Ræddu þetta við lækninn þinn í mæðraskoðun til að fá betri skýringar – hann getur mögulega fengið nánari upplýsingar hjá meðgöngudeildinni.
Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir