Landakortatunga

Spurning:

Sæl.

Læknar segja að ég sé með landakortatungu (geographic tongue), en tungan í mér er, þegar verst gegnir, eins og gatslitin gólfmotta. Auðvitað angrar þetta mig, en ég velti samt fyrir mér greiningunni, þegar ég les víða á Netinu að þetta eigi að vera skað- og sársaukalaust og hverfa inn á milli. Í mínu tilviki hverfa blettirnir aldrei alveg en eru misjafnlega greinilegir, þó alltaf á sama stað. Þetta getur verið mjög sársaukafullt og stundum finnst mér tungan svo bólgin og sár að það gerir mér erfitt fyrir að tala. Er hugsanlegt að þetta sé eitthvað annað (og alvarlegra) en landakortatunga? Eða eru upplýsingarnar á Netinu villandi?

Svar:

Sæll og takk fyrir fyrirspurnina.

Það er alltaf erfitt að segja til um hvort eitthvað sé til staðar án þess að skoða sjálfur, en út frá lýsingu þinni er ekki ólíklegt að um svokallaða landakortatungu sé að ræða. Gott hefði verið að fá einnig upplýsingar um aldur þinn og hversu lengi þetta hefur staðið. Landakortatunga er góðkynja fyrirbæri og kemur nafngiftin frá útliti tungunnar, en ekki er þekkt í dag hver orsökin er, en hugsanlegt er að um einhverja tegund ofnæmis sé að ræða. Ástandið er gjarnan misslæmt og inn á milli koma óþægindalaus eða -lítil tímabil. Eins og þú þekkir eru það sviði og óþægindi í tungunni sem eru hvimleiðir fylgikvillar þessa vandamáls. Engin meðferð er til við þessu en þeim sem hafa þennan kvilla er ráðlagt að forðast bragðsterkan, súran og mjög heitan mat, áfengi og reykingar sem geta gert ástandið verra. Ef þú ert ekki sáttur við greininguna sem þú hefur fengið, ráðlegg ég þér eindregið að hafa samband við heimilislækninn þinn og fá hann til að endurmeta vandamálið. Einnig er hugsanlegt að hann vilji útvega þér munnskol til að nota þegar tungan er slæm.

Gangi þér vel.
Kveðja,
Sólveig Magnúsdóttir, læknir.