Laxerolía til að gangsetja fæðingu

Spurning:

Sæl Dagný!

Ég heyrði að það gæti virkað vel að taka laxerolíu ef maður væri komin framyfir.

Er í lagi að taka laxerolíu og hversu mikið þá?

Með fyrirfram þökk,

Svar:

Sæl.

Ekki er þetta nú læknisfræðilega viðurkennd aðferð til að gangsetja fæðingu. Hins vegar hefur laxerolían verið notuð í gegn um tíðina og sumar konur farið af stað við það. Talið er að laxerolía hafi áhrif á prostaglandínvirkni og geti þannig haft áhrif á þroska leghálsins. Það eru reyndar áhöld um hvort það er laxerolían sjálf sem kemur fæðingunni af stað eða bara að konan er tilbúin og því fer fæðing af stað. En tilgangurinn helgar meðalið og laxerolía er ekki skaðleg, sé hún tekin í hófi.

Ef koma á hægðum af stað með laxerolíu er mælt með að taka eina til tvær matskeiðar af laxerolíu að morgni dags og drekka vel með henni, t.d. ávaxtasafa. Áhrifin koma oftast fram u.þ.b. hálfum til einum klukkutíma seinna. Ef ekkert gerist má endurtaka meðferðina aftur síðdegis (ekki seint um kvöld því þá þarf að eyða nóttinni á klósettinu). Ef engin áhrif eru af þessari meðferð á þessum sólarhring borgar sig ekki að halda áfram – nota frekar aðrar aðferðir.

Kveðja,
Dagný Zoega, ljósmóðir