Legnám – mismunandi aðgerðir?

Spurning:
Mig langar til að vita hvers vegna við legnám, að allt legið og leghálsinn er tekinn og hvers vegna er leghálsinn ekki tekinn hjá öðrum. Fer þetta eftir hvort aðgerðin er gerð neðanfrá eða í skurðaðgerð? Hverju breytir þetta fyrir konuna? Þarf kona sem er enn með leghálsinn að fara áfram í krabbameinskoðun?

Svar:
Ágæti fyrirspyrjandi;

Það fer eftir samkomulagi þínu við þinn aðgerðarlækni hvernig aðgerð er framkvæmd. Það á að ræðast við sjúkling fyrir aðgerð, svo sjúklingur viti hvernig aðgerð hann sé að fara í og af hverju. Því þarf í þínu ákveðna tilfelli að leita svara hjá þínum lækni. Sé leg tekið neðanfrá er leghálsinn alltaf tekinn með. Sömuleiðis ef kona hefur nú eða fyrri sögu um frumubreytingar (krabbameinsbreytingar) í leghálsi og eða legi. Þá koma til aðrir þættir eins og hvort verið er að lagfæra önnur vandamál eins og þvagleka eða hægðavandamál. Þetta á alltaf að ræða fyrir aðgerð.

Bestu kveðjur

Arnar Hauksson dr med