Léttist óeðlilega á meðgöngu

Spurning:

Góðan daginn

Þannig er að ég er ófrísk komin 11 vikur á leið og hef þjást af mikilli ógleði frá því á 5tu viku. Þetta er ekki einungis morgunógleði heldur viðvarandi allan sólarhringinn og uppköst að meðaltali annanhvern dag. Ég hef ekki getað borðað heila máltið í 5 vikur en reyni að pína eitthvað í mig á hverjum degi (e.t.v. 1000-1500 hitaeiningar) í von um að halda því niðri og svo reyni ég að stunda mína vaktavinnu nú kvöld og næturvaktir. Þar sem ekkert lát virðist á þessari ógleði er ég farin að hafa áhyggjur af heilsufari barnsins og farin að kvíða stöðugt næsta degi með allri sinni ógleði og fæ hnút í magann þegar ég lít á klukkuna og sé að að eru liðnir nokkrar klst. frá því að ég reyndi síðast að nærast eitthvað. Þá reyni ég að borða eitthvað fljótlega þótt ég kúgist af því. Ég hef lést að meðaltali um 1 kg á viku síðastliðnar 4 vikur og var nú ekki þung fyrir. Áður 53 kg 164cm. Nú 49 kg.

Er eðlilegt að léttast svona mikið á fyrsta þriðjungi meðgöngu?

Venjuleg ráð s.s. að borða oft og minna í einu og jafnvel uppi í rúmi á morgnana osfrv. duga mér ekki. Eru til einhver lyf sem ég get tekið svo ég hafi lyst á að borða og haldi því niðri? Ef svo er eru þau 100% örugg?

Hvað er allra allra mikilvægast að ég reyni að fá úr fæðunni, t.d. prótein eða vítamín?

Er ég óskynsöm að vera að pína mig til að vinna (hjúkrunarfræðingur) meðan ég nærist svona lítið?

Eru til einhverjir næringardrykkir sem ég notað til að fá næringu í kroppinn án þess að innbyrða mikið?

Ég reyndi að ræða við kvensjúkdómalækninn minn um þetta fyrir 3 vikum. Hann virtist áhugalaus og eyddi samtalinu strax með því að segja það eðlilegt að finna fyrir ógleði í byjun meðgöngu og ef keyrði um þverbak yrðum „við læknar að grípa inn í" og svo snéri hann sér að öðru.

Svar:

Það er gott að þú ert meðvituð um mikilvægi næringarinnar. Það er svo sem ekkert óeðlilegt að léttast á fyrsta þriðjungi meðgöngu, ef ógleðin er mjög mikil. Ógleðin ætti nú bráðlega að fara að hverfa og þú getur vonandi farið að nærast betur.

Eftirlit með ófrískum konum er mjög gott hér á landi og ég sannfærð að það komi til með að verða gripið inní ef ógleðin hverfur ekki og þú ferð ekki að þyngjast eðlilega. Nokkur ráð sem hafa dugað hjá þunguðum konum í sambandi við ógleði eru t.d. þessi sem þú nefnir og ekki duga í þínu tilfelli. Einnig er hægt að tyggja tyggjó eða sjúga brjóstsykur, forðast mat með sterkri lykt (borða til dæmis kaldar máltíðir) og forðast appelsínusafa, vatn, mjólk, kaffi og te þegar þú finnur fyrir ógleði. Varðandi lyf gegn ógleði þá er það utan við mitt fag að gefa ráðleggingar um það.

Þú spyrð um hvað sé mikilvægast að fá úr fæðunni. Reyndu að hafa fæðið eins fjölbreytt og kostur er. Prótein eru vissulega mikilvæg ófrískum konum. Fæði Íslendinga er að jafnaði mjög próteinríkt, þannig að það er yfirleitt óþarfi að auka hlutfall próteina í fæðinu á meðgöngu. Meðan lystin er svona lítil er aðalatriði að reyna að borða það sem þú treystir þér til. Ef þér finnst þú þróttlítil ættir þú ekki að hika við að slaka aðeins á í vinnunni ef þú átt þess kost. Annars ættir þú að reyna að hvíla þig eins mikið og kostur er milli vakta.

Meðan lystin er svona lítil myndi ég ráðleggja þér að taka inn fjölvítamín. Annar kostur eru næringardrykkir, en þeir innihalda mikla orku og prótein auk bætiefna og þú þarft ekki að innbyrða mikið magn til að ná góðri orku. Til eru nokkrar tegundir næringardrykkja í apótekum. Farðu samt varlega í að raða í þig bætiefnum – sérstaklega þarf að huga að A-vítamíni þar sem það getur verið hættulegt fóstrinu ef þess er neytt í of stórum skömmtum (ef neysla fer yfir 3-4 x RDS þá getur það valdið fósturskaða). Taktu því ekki fjölvítamín sem inniheldur A-vítamín ef þú annað hvort tekur lýsi (sem er mjög A-vítamínríkt) eða ferð út í næringardrykkina (þeir innihalda einnig A-vítamín). Það er þó mun betra að reyna að borða eins mikið og þú mögulega getur – en ekki skipta fæðinu alveg út fyrir næringardrykki. Þeir eru meira hugsaðir sem ábót ef fæðið dugar ekki til.

Fólasín er það vítamín sem huga þarf sérstaklega að á fyrstu vikum meðgöngu. Fólasín er að finna í flestum matvælum en í mestu magni í brauði, þurrkuðum baunum og grænu grænmeti. Margar konur fá ekki nægjanlegt fólasín úr fæði og er þá nauðsynlegt að taka auka fólasín í töfluformi (ath að fjölvítamíntöflur innihalda einnig fólasín). Ófrískum konum er ráðlagt að neyta daglega 400 mg af fólasíni.

Á síðari hluta meðgöngu eykst þörf kvenna fyrir járn verulega og erfitt getur
reynst fyrir margar að uppfylla þarfir sínar án þess að taka inn járn aukalega.

Kveðja,
Ingibjörg Gunnarsdóttir,
matvæla- og næringafræðingur