LH hækkun og brúnleitar blæðingar?

Spurning:
Góðan daginn, ætlaði að reyna að senda inn spurningu fyrr í dag en þá var lokað fyrir fyrirspurnir þannig að ég sendi inn á umræðuvefinn, en langar að athuga hvort hægt sé að fá svar frá sérfræðingi. Ég mældi mig með LH hækkun fyrir nokkru og viku síðar byrjaði ég að hafa örlitlar brúnleitar blæðingar, sem nú hafa varað í 4 daga. Þetta er mjög lítið og hélt að þetta gæti verið svona bólfestublæðing, er það líklegt? Og ef svo er hvað vara þær venjulega lengi, eru 4 dagar ekki frekar langur tími fyrir þess háttar? Með von um skjót svör.
Ein spennt (vonandi) verðandi móðir

Svar:

Það er erfitt að svara nokkru um hvers vegna svona blettablæðing kemur þar sem ekki koma fram upplýsingar um síðustu blæðingar, hvort þær hafa verið reglulegar og hversu lengi þær vara venjulega. Hafi kona nýlega verið á hormónameðferð, t.d. pillunni getur það einnig brenglað útkomuna. Það verður þó að teljast hæpið að um sé að ræða bólfestublæðingu þar sem slík blæðing varir yfirleitt ekki lengur en einn til tvo daga og er mjög lítil. Það eina sem þú getur gert er að bíða og sjá til. Ef eðlilegar blæðingar koma ekki á réttum tíma er tímabært að gera þungunarpróf en fyrr er ekkert hægt að segja um hvað er í gangi.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir