LH hormón í tíðahringnum?

Spurning:
Halló, ég þarf nauðsynlega að skilja tíðahringinn minn betur. Ég keypti mér egglosmæli og mældi mig í gær (á 23. degi) og voru þá mjög greinilegar tvær línur og ég samkvæmt því með egglos. Það sem mig langar að vita er hvort þetta þýði endilega að ég sé með egglos núna. Hverfa þessar tvær línur eftir egglosið eða eru þær áfram til staðar þangað til blæðingar hefjast (þetta LH hórmón sem sagt)? Ef homónið er bara til staðar í þessa 2-3 daga sem egglosið er þá þýðir þetta að ég er með egglos núna og er frjó? Samt finnst mér eins og ég sé búin að hafa egglos og að þetta séu bara leifar af því. Ég hef nefnilega enga útferð núna eða neitt merki um egglos. Er ég endilega á frjósemistímabili núna þó prófin sýni tvær línur? Hætti ég að vera frjó eftir egglossdagana þangað til blæðingar hefjast? Halda prófin áfram að finna þessi LH hormón eftir egglos þó ég sé ekki frjó? Takk fyrir!

Svar:
Hormónið Luteinizing hormone (LH) er alltaf til staðar í líkamanum, en í litlu magni nema um miðbik tíðahringsins þegar verður skyndilega margföld aukning á því sem undanfari eggloss. Þessi aukning kemur fram u.þ.b. 36 klst. áður en egg losnar og varir í 3 sólarhringa. Eftir það dvínar hormónið aftur. Egglosmælirinn nemur LH hormónið einungis í þessum hækkaða fasa þannig að þegar þéttni þess dvínar eftir egglos hættir það að sýna tvö blá strik. Mestar líkur á getnaði eru ef samfarir eru hafðar þegar prófið sýnir fyrst 2 strik því þá eru sæðisfrumurnar komnar í eggjaleiðarana þegar egglosið verður og þær geta lifað þar í 3-4 daga á meðan eggið lifir einungis í einn sólarhring. Þess vegna er ráðlagt að taka eitt próf á dag frá því rétt fyrir egglos og þar til mælirinn sýnir 2 blá strik. Þannig geturðu reiknað út frjóasta tímann.

Kveðja,

Dagný Zoega, ljósmóðir