Spurning:
Komdu sæl Dagný.
Víð erum par á Norðurlandi og nú er svo komið að hún er orðin ólétt, allavega eru orðinir 40 dagar frá síðustu blæðingum og hún er byrjuð að finna fyrir verkjum í brjóstum ásamt fleiri einkennum. Hún er búin að taka eitt þungunarpróf sem var jákvætt.
Það sem við erum að velta fyrir okkur er að hún er búin að drekka áfengi tvisvar þannig að hún fann á sér og fara þrisvar í ljósabekk. Hún er líka á Herbalife megrunarkúr frá 2.10.'00. og hefur tekið það reglulega inn síðan. Hún hefur einnig verið á Zoloft þunglyndislyfjum. Okkur þætti vænt um að fá svör við spurningum um hvort að þetta gæti verið búið að skaða fóstrið á einhvern hátt.
Ps. Er í lagi að taka inn Zoloft þunglyndislyfin á meðgöngu?
Kær kveðja, par í vanda.
Svar:
Sæl.
Kæra par. Til að byrja með væri nú sniðugt fyrir konuna að hitta lækni til að skipta um þunglyndislyf. Svo væri ekki úr vegi að byrja aðeins að endurskoða lífshættina. Úr því að konan er þunguð ætti hún strax að hætta á Herbalife megrunarkúrnum. Bæði er það vegna þess að ekki er fyllilega ljóst hvaða áhrif efnin í Herbalife hafa á fóstrið og þar að auki þarf fóstrið næringu sem ekki verður tekin af fituforða móðurinnar heldur verður að koma úr fjölbreyttu og hollu mataræði. Vitaskuld er skynsamlegt fyrir verðandi móður að takmarka þyngdaraukninguna en það gerir hún helst með því að sleppa sælgæti, kökum og gosi, drekka mikið af hreinu vatni og borða rétt hlutföll af öllum fæðuflokkunum.
Hvað varðar áfengisnotkun á meðgöngu er vitaskuld slæmt fyrir fóstrið að móðirin drekki áfengi en úr því sem komið er er lítið að gera. Yfirleitt sleppur fóstrið við skaða ef einungis er um einn til tvo undantekningaratburði að ræða í byrjun meðgöngu. Notkun áfengis á meðgöngunni er hins vegar slæm fyrir fóstrið því það fær næstum tvöfaldan þann skammt sem móðirin fær, því alkóhólið fer beint yfir fylgju til barnsins og að auki fer það í legvatnið sem barnið síðan drekkur. Ljósabekkirnir eru ekki svo skaðlegir meðgöngunni á meðan konan gætir þess að ofhitna ekki (nota vifturnar á fullu) og það er gott að setja ljóst handklæði yfir kviðinn meðan verið er í ljósunum. Hins vegar er almennt séð ekkert hollt fyrir húðina að vera í ljósum og á meðgöngu er hún sérstaklega viðkvæm og ekki óalgengt að litarefnið hlaupi í kekki þannig að hún verði flekkótt af ljósunum.
Vona að þetta svari í einhverju spurningum ykkar en hafið samt samband sem fyrst við lækni til að endurskoða þunglyndislyfin og svo skuluð þið endilega vera í góðu sambandi við ljósmæðurnar í ykkar bæ. Þær veita ykkur stuðning í meðgöngunni.
Gangi ykkur vel,
Dagný Zoega, ljósmóðir